Fara í efni

Ástæða ríkjandi banns á snákum, eðlum og skjaldbökum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


  Almennt bann hefur ríkt við innflutningi skriðdýra á borð við slöngur, skjaldbökur og eðlur frá því snemma á 9. áratug síðust aldar. Bannið byggði upphaflega á alvarlegum sjúkdómstilfellum í fólki af völdum salmonellasmits sem rekja mátti með ótvíræðum hætti til þessara gæludýra. Árið 1983 kom upp sýking af völdum Salmonella paratyphi B (sem veldur taugaveikibróður) á heimili í Reykjavík sem grunur lék á að væri af völdum smits frá vatnaskjaldböku. Sú grunsemd reyndist á rökum reist og ræktaðist bakterían bæði úr vatni, fiskabúri og úr skjaldböku heimilisins. Við nánari rannsókn í gæludýraverslunum á höfuðborgarsvæðinu kom í ljós mikil mengun með Salmonella paratyphi B í fiskabúrum verslananna og í skjaldbökum sem þær höfðu til sölu. Í einni verslun fannst einnig Salmonella arizona. Í framhaldi af þessum niðurstöðum bárust alls 290 skjaldbökur til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum frá 183 heimilum víðsvegar að af landinu. Alls greindust salmonellasýklar í skjaldbökum frá 55 þessara heimila (30%) og var tegundaskipting eftirfarandi: Salmonella paratyphi B í skjaldbökum frá 42 heimilum (23%),  Salmonella arizona frá 8 heimilum (4,4%) og aðrar salmonellategundir í skjaldbökum 5 heimila (2,7%).

Hvaða tegundir salmonellu eiga í hlut?

Rannsóknir hafa leitt í ljós að allt að 94% ofangreindra skriðdýra eru frískir smitberar salmonella. Ótal undirtegundir bakteríunnar eiga í hlut, s.s. S. paratyphi B., S. arizona, S. typhimurium, S. enteritidis, S. adelaide, S. cholerasuis, S. bovis morbificans og S. newport. Allar þessar undirtegundir eiga það sammerkt að vera svokallaðar súnur (zoonosis), þ.e.a.s. geta smitað bæði dýr og menn.

Nýleg reynsla af innflutningi

Innflutningur skriðdýra og ýmissa annarra framandi smádýra er alltaf öðru hvoru til skoðunar hjá þar til bærum heibrigðisyfirvöldum. Vinsældir skriðdýra sem gæludýra koma í bylgjum og eykst þá þrýstingur fyrir innflutningi og jafnframt fer að bera á smygli slíkra dýra.

Fyrir rúmum áratug ákváðu dýralæknayfirvöld og ráðuneyti að gera tilraun til að slá á svartamarkaðsbrask á eðlum sem þá náði nýjum hæðum og jafnframt að fá alla sölu og dreifingu þessara gæludýra upp á borðið. Þekktur ræktandi á Bretlandseyjum fullyrti að hann gæti útvegað eðlur sem væri búið að losa við salmonellusmit og rækta þannig kynslóð fram af kynslóð. Verslun á höfuðborgarsvæðinu flutti inn um 420 eðlur (Iguana og Leopard gecko) og með þeim fylgdi heilbrigðisvottorð undirritað af þarlendum yfirvöldum þar sem staðfest var að dýrin væru laus við salmonellu. Eftir 3 vikur í sóttkví voru tekin sýni til ræktunar og kom þá í ljós að öll sýni reyndust bullandi jákvæð gagnvart Salmonella typhimurium. Þessi innflutningstilraun mistókst því með öllu og var dýrunum fargað og eytt.

Eins og kunnugt er, m.a. af fjölmiðlaumfjöllun, koma skriðdýr alltaf öðru hvoru til kasta bæði heilbrigðis- og lögregluyfirvalda. Slíkum dýrum ber að farga og eyða af öryggisástæðum og er þá í langflestum tilfellum framkvæmd rannsókn á mögulegu salmonellasmiti á Keldum. Nær undantekningarlaust greinist ein eða fleiri áðurnefndra salmonellategunda. Nýjasta dæmið er þegar lögreglan í Hafnarfirði gerði upptækan fjöldan allan af snákum, skordýrum og tarantula kóngulóm þann 1. júlí sl. Snákarnir voru alls 5 af fjórum mismunandi tegundum og við rannsókn á Keldum og sýkladeild LSH kom í ljós að allir voru þeir smitaðir af Salmonella cholerasuis.

Þess skal getið að full heimild er fyrir innflutningi á froskum og salamöndrum, enda samsetning þarmaflóru þeirra með öðru sniði.

Reynsla annarra landa

Þegar skoðuð er reynsla nágrannaríkja okkar í þessum efnum kemur í ljós að þau hafa öll að mestu gefið eftir og heimilað innflutning þrátt fyrir mótmæli heilbrigðisstétta. Svíþjóð, Noregur og Finnland settu bann við slíkum innflutningi í kringum 1970 en um tveimur áratugum síðar var gefið eftir með innflutning en þó með ákveðnum skilyrðum. Svíar gerðu tilraun með innflutningsleyfi sumarið 1987 og settu skilyrði um sýnatöku úr öllum dýrum. Á þeim tíma ræktaðist salmonella úr 15-20% dýranna. En það sem verra var, á næstu 6 mánuðum komu upp 36 alvarleg tilfelli salmonellasýkinga í fólki sem rekja mátti beint til innfluttra skriðdýra og þar af 21 barn sem smituðust af skjaldbökum. Innflutningsbann var því sett að nýju í janúar 1988 og stóð það samfleytt til 1995 en þá gáfu yfirvöld eftir í kjölfar mikils þrýstings frá gæludýrasamtökum. Á þessum tíma var smygl orðið gífurlega algengt og erfitt að fylgja eftir banni á landamærum við aðliggjandi lönd. Noregur og Finnland voru þá búin að heimila þessi dýr en með skilyrðum um sýnatöku, sem þau féllu svo frá vorið 1993. Þess í stað voru gerðar kröfur til seljanda að kaupendur væru upplýstir skriflega um smithættu og því allri ábyrgð varpað á seljendur og kaupendur. Þessi lönd, auk Bandaríkjanna, eiga það sameiginlegt í dag að banna innflutning á vatnaskjaldbökum sem eru minni en 10 sm að lengd.

Sem dæmi um viðbrögð erlendra heilbrigðisstétta má vitna í skrif sænskra lækna eftir að þarlend yfirvöld heimiluðu innflutning á skriðdýrum í mars 1995. Strax ári síðar hafði salmonellatilfellum fjölgað kröftuglega á meðal fólks og bar öllum niðurstöðum saman um að rekja mætti lang flest þeirra til innfluttra skjaldbaka, eðla og snáka. Svo dæmi sé tekið var há tíðni Salmonella enteritidis í fólki mikið áhyggjuefni lækna á þessum tíma. Árið 1996 voru staðfest a.m.k. 58 tilfelli þar sem fólk hafði smitast af bakteríunni frá skjaldbökum og þar af voru 44 börn yngri en 15 ára sem veiktust hastarlega. Þar að auki voru staðfest 22 alvarleg tilfelli sem rekja mátti til eðla eða snáka.

Niðurlag

Af ofansögðu má ráða að okkur ber að taka málið alvarlega og heilbrigðisstéttum og þar til bærum yfirvöldum er skylt að upplýsa fólk um ástæðu innflutningsbann þessara dýra. Öðru hvoru koma upp þær raddir, ekki síst á meðal áhugafólks um gæludýr, hvort ekki beri að endurskoða afstöðu yfirvalda. Því er til að svara að fylgst er með þróun þessara mála eftir bestu getu en eins og staðan er í dag væri óábyrgt að mæla með slíkum innflutningi, slíkt væri einnig stílbrot miðað við ábyrga stefnu Matvælastofnunar í baráttunni við salmonella í búfénaði hér á landi.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?