Fara í efni

Ársskýrsla RASFF 2013

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ársskýrsla hraðviðvörunarkerfisins RASFF um hættuleg matvæli og fóður á markaði var birt í júní síðastliðnum.  Skýrslan hefur að geyma stutta lýsingu á RASFF-kerfinu og starfsreglum þess, ásamt því að draga fram nokkrar helstu niðurstöður ársins. Meðlimir að tilkynningakerfinu eru öll lönd Evrópusambandsins og EFTA ásamt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA)  

Tilkynningar í gegnum viðvörunarkerfið árið 2013 voru alls 5128 og af þeim voru 595 flokkaðar sem áríðandi (alert). Tilkynnt var um 53 hópsýkingar á árinu og var ástæðan í mörgum tilvikum veirusýking vegna neyslu á frosnum berjum eða skelfiski (20 af 53).  Vegna þessa hefur Matvælastofnun ráðlagt neytendum að sjóða öll erlend frosin ber í minnst eina mínútu áður en þau eru notuð í drykki og aðra rétti sem ekki eru hitaðir.

Árið 2013 komst upp um svindl með hrossakjöt sem var sett á markað í Evrópu sem nautakjöt og var RASFF kerfið notað til miðla upplýsingum um dreifingu þess og fyrirtæki sem áttu hlut að máli. Þó að matvælaörygginu væri ekki ógnað var tilkynningarkerfið eigi að síður notað í þessu tilviki. Nýtt tilkynningakerfi Evrópusambandsins um matvælasvindl (food fraud) verður tekið í notkun á næstunni.

Kaup á matvælum í gegnum vefsíður hefur færst í aukana og voru fjölmargar tilkynningar á síðasta ári um hættuleg ólögleg innihaldsefni í fæðubótarefnum sem ekki voru tilgreind á umbúðum. Matvælastofnun hefur birt viðvaranir á vefsíðu sinni varðandi þessi fæðubótarefni og sent þær til fjölmiðla.

RASFF tilkynningar 2013 sem varða vörur sem voru fluttar til Íslands voru tíu, þar af ein um salmonellu í fóðri sem Ísland tilkynnti inn í kerfið. Sjá nánar í starfsskýrslu Matvælastofnunar 2013.

Ítarefni

 

 

 


Getum við bætt efni síðunnar?