Fara í efni

Árangur í fiskeldi og eftirliti opnar markaði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftir þriggja mánaða lokun landamæra í Chile fyrir öllum innflutningi á laxahrognum hafa fiskeldisyfirvöld í Chile (Sernapesca) ákveðið að leyfa aftur innflutning frá Íslandi, einu landa. Miðvikudaginn 13. nóvember ákváðu yfirvöld að leyfa aftur innflutning á hrognum til Chile eftir strangt áhættumat á heilbrigðisástandi í fiskeldi á Íslandi, sérstaklega með tilliti til alvarlegra veirusjúkdóma.

Hjartasjúkdómurinn hjartarof (e. CMS - Cardiomyopathy syndrome) af völdum PMCV-veirunnar leggst á eldislax í sjó og færðist nýlega á lista yfir alvarlega framandi sjúkdóma í Chile, sem olli því að loka varð landamærunum fyrir öllum innflutningi á erfðaefni og lifandi fiski, meðan áhættumat færi fram á þeim löndum sem hafa stundað viðskipti við Chile með erfðaefni og lifandi fisk. Veiran og sjúkdómurinn hafa aldrei greinst á Íslandi en hafa valdið miklum búsifjum í m.a. norsku og skosku laxeldi undanfarin ár. 

Þessar fréttir staðfesta mikilvægi góðrar sjúkdómavöktunar og eftirlits Matvælastofnunar með heilbrigði í fiskeldi fyrir afkomu íslenskra fyrirtækja. Íslensk laxahrogn eru eftirsótt í laxeldi um allan heim vegna stöðugrar dreifingar yfir allt árið og góðrar sjúkdómastöðu landsins.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?