Fara í efni

Árangur gegn kampýlóbakter

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á miðju ári 1996 var leyfð sala ófrystra kjúklinga á Íslandi, en fyrir þann tíma hafði aðeins verið heimilt að selja þá frysta. Neysla kjúklingakjöts jókst jafnt og þétt og fór ársneyslan úr tæpum 6 kg/mann árið 1996 í um 10 kg/mann árið 1999. Í kjölfar neysluaukningarinnar jukust kampýlóbakter sýkingar í fólki og var neysla ferskra kjúklinga talin meginorsök aukinna sýkinga í fólki. Gripið var til viðamikilla aðgerða sem fólust m.a. í fræðslu um smitleiðir kampýlóbakter í fólk og dýr. Smitvarnir á alifuglabúum voru efldar og viðamiklar rannsóknir hófust. Nú er tíðni kampýlóbakter sýkinga í fólki sem rekja má til innlends smits svipuð og hún var þegar eingöngu frystir kjúklingar voru á markaði, þrátt fyrir að neyslan kjúklingakjöts sé nú um 21 kg/mann og að kjúklingakjöt sé að mestu ófryst á markaði. Hvernig náðist þessi árangur?

Sýklafræðideild Landspítalans
Kampýlóbakter í fólki á Íslandi 1990-2008

Góð samvinna heilbrigðisyfirvalda og alifuglaframleiðenda er lykillinn að árangrinum. Tekin eru sýni úr öllum alifuglahópum og þau rannnsökuð m.t.t. kampýlóbakter 2 – 5 dögum fyrir slátrun. Sýnatakan er endurtekin við slátrun. Ef hópur reynist smitaður af kampýlóbakter fyrir slátrun er hann allur frystur strax að lokinni slátrun því kampýlóbakter sýklarnir drepast flestir við frystingu. Fuglar geta smitast síðustu dagana fyrir slátrun og er því hætta á að hluti hópanna fari sýktir á markað. Íslenskar reglur um varnir og viðbrögð við kampýlóbakter sýkingum í alifuglum draga hins vegar verulega úr fjölda hópa sem fara sýktir á markað. Engu að síður skal ætíð gæta varúðar við eldamennsku og varast að menga önnur matvæli sem borðuð eru hrá, t.d. salat.

Kampýlóbakter í kjúklingum á Íslandi


Á hverju ári smitast um 4% fuglanna rétt fyrir slátrun, þessi fjöldi fer þó ekki allur sýktur á markað, því þegar rannsóknarniðurstöður liggja fyrir ber að stöðva dreifingu og frysta eða elda það sem eftir er af hópnum. Í ESB-ríkjunum er mengunin misjöfn eða frá 0% og upp í 86,5% í kjúklingum á markaði. Tekið skal fram að tölur frá sumum ESB-ríkjanna byggja á stopulum sýnatökum, þar sem sýni eru jafnvel eingöngu tekin að vetri til  þegar smitálag kampýlóbakter í umhverfi er í lágmarki.

Kampýlóbakter er „sumar-baktería“. Júlí og ágúst valda alifuglabændum mestum erfiðleikum. Undanfarin ár hefur þeim þó tekist að halda kjúklingum nánast lausum við kampýlóbakter frá nóvember til apríl ár hvert. Sömuleiðis hefur hámarkstíðni kampýlóbakter á sumrin lækkað með hverju árinu og stefnir í að árið 2009 verði metár í þessu tilliti.

Kampýlobakter í kjúklingum 2000 - 2009
Botnlangasýni (Tilraunastöð HÍ, Keldum)



Eru flugnanetin á innlofts-strompunum að skila þessum árangri 2009? Vitað er að flugur bera með sér kampýlóbakter og flugurnar sogast inn með viftum. Dönsk rannsókn sýndi fram á lækkun kampýlobakter smits í fuglunum þegar kjúklingahús voru gerð fluguheld. Íslenskir alifuglaframleiðendur hafa reynt að gera kjúklingahúsin fluguheld við afar erfiðar aðstæður. Hvernig er hægt að gera loftstrompa fluguhelda sem stenst storm t.d. 30 metra/s? 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?