Fara í efni

Ákvarðanir um stuðningsgreiðslur til bænda staðfestar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest þrjár ákvarðanir Matvælastofnunar um stuðningsgreiðslur til bænda sem kærðar voru til ráðuneytisins. 

Úrskurðirnir tengjast allir Búnaðarstofu Matvælastofnunar en hún var lögð niður í lok árs 2019 og verkefni hennar færð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Svæðisbundinn stuðningur í sauðfjárrækt

Matvælastofnun synjaði sauðfjárbónda á Norðurlandi um sérstakan svæðisbundinn stuðning. 

Samkvæmt gildandi reglugerð var eitt af skilyrðum þess að geta fengið slíkan stuðning að bóndi ætti 300 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri skv. haustskýrslu næstliðið haust.  Kærandi uppfyllti ekki þetta skilyrði.  Kærandi benti þá á að skv. reglugerðinni gilti sérregla um bændur í Árneshreppi á Ströndum en þeim dugði að eiga 100 vetrarfóðraðar kindur.  Taldi hann sig búa á sambærilegu afskekktu svæði og ætti þar af leiðandi að eiga sama rétt.  Matvælastofnun taldi sig hins vegar ekki hafa heimild til að fara út fyrir heimildir reglugerðarinnar og á það féllst ráðuneytið.

Nýliðunarstuðningur fyrir kúabú

Hjón sem ráku saman kúabú sóttu um nýliðunarstuðning. Við mat umsókna aðila í sambúð fór stigagjöf fram skv. vinnureglum stofnunarinnar þar sem ákveðnir þættir eru metnir sameiginlega en aðrir á einstaklingsgrundvelli. Við mat einstaklinga miðar stuðningurinn við þann sem fær fleiri stig.   

Hjónin kröfðust þess hins vegar að styrkleikar beggja umsækjenda yrðu metnir samanlagt sem hefði leitt til hærri greiðslu. Ráðuneytið féllst hins vegar á afgreiðslu Matvælastofnunar.

Stuðningsbætur til sauðfjárbænda vegna kjaraskerðingar

Eigendaskipti urðu á bújörð haustið 2017. Í janúar 2019 tók gildi reglugerð um sérstakar stuðningsgreiðslur til sauðfjárbænda til að draga úr kjaraskerðingu sauðfjárbænda á árinu 2018 fyrir dilkakjötsframleiðslu ársins 2017.

Matvælastofnun greiddi hinum nýju eigendum þessar stuðningsgreiðslur en fyrri eigendur jarðarinnar töldu sig eiga rétt á þeim. Þeir uppfylltu hins vegar ekki það skilyrði reglugerðarinnar þegar reglugerðin var sett að vera skráðir eigendur umrædds lögbýlis og ráku ekki sauðfjárbú þar.  Reglugerðin gerði ekki ráð fyrir að fullnægjandi væri að kærendur hafi uppfyllt skilyrði áður en til úthlutunar kom sem kærendur gerðu vissulega hluta árs 2017. Afgreiðsla Matvælastofnunar var því staðfest.


Getum við bætt efni síðunnar?