Áhrif skotelda á dýr, gleðin sem getur haft skelfingu í för með sér!
Fagráð um velferð dýra starfar skv. 5. gr. laga um velferð dýra og ætlað að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra, sem og að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra.
Á fundi sínum þann 20. nóvember sl. voru tekin fyrir áhrif skotelda á dýr og ályktaði fagráðið með svohljóðandi hætti:
Áhrif skotelda á dýr, gleðin sem getur haft skelfingu í för með sér!
Upplýst var um mat sérgreinadýralæknis frá árinu 2019 um áhrif flugelda á dýr sem sent hafi verið á sínum tíma til Umhverfisstofnunar. Settar hafa verið reglur um lægra sprengjumagn og takmarkanir á tímamörkum hvenær heimilt er að skjóta upp flugeldum.
Ályktun fagráðs um velferð dýra.
Dýralæknar og dýraeigendur þekkja vel til vandamála vegna skotelda. Nýleg könnun meðal gæludýraeiganda sýnir að meirihluti telur að dýr þeirra líði fyrir sprenginga skotelda. Gæludýr geta orðið mjög hrædd og samkvæmt gögnum frá lyfjabirgjum þá ávísa dýralæknar kvíðastillandi lyfjum í umtalsverðu magni til að gera sprengitímabilið léttbærara fyrir hunda. Sömuleiðis eru dæmi um að hestar jafnt á húsi sem útbeit verði skelfingu lostnir. Slys, vegna flótta og jafnvel hrossasótt má iðulega rekja til þessa. Niðurstaðan er sú að margir hestaeigendur verða að vakta hesthúsin og fylgjast með útiganginum um áramótin. Einnig má rekja slys á fólki til þess að reiðhestar hafa fælst þegar sprengt er að degi til nálægt reiðleiðum. Að lokum má nefna að villt dýr verða líka fyrir áhrifum. Hollenskar og norskar rannsóknir sýna að fuglar leggja á flótta og geta jafnvel þúsundfalt fleiri fuglar verið á flugi þar sem skoteldar hafa verið sprengdir. Fagráð minnir á að gæsir, endur og mávar fljúga hátt og lengi sem kostar fuglana mikla orku á tíma þar sem þeir þurfa að fara sparlega með hana.
Fagráð um velferð dýra telur að frekari vitundarvakningar sé þörf fyrir almenning svo fólk átti sig á að gleðin hefur skelfingu í för með sér fyrir marga, bæði dýr og dýraeigendur. Vandamál er sömuleiðis notkun skotelda utan áramóta og þrettánda, þá gjarnan hjá börnum og unglingum. Þörf er að kynna sérstaklega fyrir þessum aldurshópum mögulegar afleiðingar þess sem virðist saklaus leikur. Leggur fagráðið til að hagaðilar taki höndum saman núna í desember um að efla vitund almennings um áhrif skotelda á öll dýr þannig að varlega verði gengið um gleðinnar dyr yfir hátíðarnar.