Fara í efni

Aðgerðir vegna riðu á Merki í Jökuldal

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eins og kunnugt er þá hefur komið upp riða á bænum Merki í Jökuldal þar sem eitt heilasýni úr kind sem slátrað var á Vopnafirði í haust reyndist jákvætt. Samkvæmt greiningum á Tilraunastöðinni á Keldum þá er riðan í flokki óhefðbundinna tilfella af riðu eða af afbrigðinu NOR 98 og er þetta fjórði bærinn á Íslandi þar sem þetta afbrigði greinist. Við þeim tilfellum hefur verið brugðist með niðurskurði, eins og um hefðbundna riðu væri að ræða. Á bænum eru nú um 540 kindur á fóðrum. Allt fé í þessu varnarhólfi var skorið niður fyrir tæpum tuttugu árum, en síðasta tilfelli af riðu kom upp í hólfinu 1997. Mikilvægt er að taka skýrt fram að samkvæmt bestu fáanlegu vísindum þá er hvorki hefðbundin riða né afbrigði af riðu talin geta borist í fólk og valdið veikindum í því.

Allmikil umræða hefur orðið vegna þessa tilfellis á Merki og að það skuli vera af afbrigðinu NOR 98.Um fræðslu um þetta afbrigði vísast í ágæta grein í Bændablaðinu þann 1. mars sl. eftir Dr. Stefaníu Þorgeirsdóttir, sérfræðing á Keldum, sem er okkar fremsti vísindamaður á þessu sviði. Eins og fram kemur í greininni þá rikir nokkur óvissa um skilgreiningu á þessu afbrigði, en samkvæmt alþjóðlegum vísindagreinum , þá er þetta afbrigði talið geta verið smitandi, en greinilega mun minna smitandi en hefðbundin riða. 

Komið hafa fram tillögur um, að  í þessu tilfelli verði ekki skorið niður með hefðbundnum hætti, heldur farin ákveðin millileið, þar sem öllum kindum eldri en fimm ára, auk kinda sem eru mest skyldar jákvæðu kindinni, alls um 145 kindum, verði fargað sem allra fyrst og heilasýni þeirra rannsökuð. Ef í þeim sýnum finnst eitt eða fleiri tilfelli af NOR98 eða hefðbundinni riðu, verði engin áhætta tekin og allar kindur á bænum skornar og hreinsað til á bænum með hefðbundnum hætti. Ef ekkert jákvætt sýni kemur fram úr þessum kindum, þá verði fylgst náið með eftirlifandi kindum í nokkur ár, í samræmi við ákveðna áætlun um mótvægisaðgerðir. Tillögur þessar hafa m.a. komið úr heimahéraði og talið er að nokkuð vítæk sátt geti verið um þær þar.

Áhættumat

Í máli sem þessu ber yfirdýralækni að taka allar hliðar þess til faglegrar skoðunar og það hefur verið gert og má þar nefna eftirfarandi atriði:

  • Á Íslandi er riða í viðauka 1 A í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Í reglugerð nr. 651/2001  um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar segir í 3. gr. að ef riðuveiki er staðfest leggi yfirdýralæknir til við landbúnaðarráðherra að viðkomandi hjörð verði lógað hið fyrsta. Síðast kom upp NOR98 afbrigði af riðu í Hrútafirði og þá sem og  í fyrri tilfellum af því, var litið á þetta með sama hætti og hefðbundna riðu og allt fé skorið niður.   Það var svo í  maí 2009, sem i Alþjóða dýrasjúkdómastofnunin – OIE – breytti skilgreiningu sinni  á þessu afbrigði og taldi það ekki tilheyra hefðbundinni riðu, en afbrigðið samt ekki skilgreint sem sérstakur sjúkdómur. Í  athugasemdum við breytingu á lögum nr. 25/1993, sem gerð var á löggjafarþinginu 2000 – 2001 kemur  m.a. fram að nauðsynlegt sé að gildandi sjúkdómaskrá verði aðlöguð alþjóðlegum stöðlum og leitast skuli við að samræma skrána í takt við reglur Alþjóða dýrasjúkdómastofnunarinnar. Af þessu er ljóst að ekki er lengur skylt að beita niðurskurði vegna NOR 98 afbrigðisins.
  • Eins og áður sagði þá er þetta afbrigði talið geta verið smitandi, en greinilega mun minna smitandi en hefðbundin riða.
  • Það væri því verið að taka ákveðna áhættu, ef ekki yrði brugðist við með niðurskurði og hefðbundinni hreinsun.
  • Hvað þessi áhætta er mikil er erfitt að gera sér grein fyrir.  Með því að farga nú þegar elstu kindunum, þar sem erlend tölfræði segir okkur að séu mest líkindi  á að finna bæði þetta afbrigði og einnig hefðbundna riðu, þá fengist nokkur vísbending um hvaða áhættu er verið að taka og miða síðari aðgerðir í samræmi við það.
  • Hafa þarf í huga hvernig erlendar þjóðir hafa brugðist við þegar NOR98 eða önnur afbrigði af riðu hafa verið greindar. Það voru Norðmenn sem greindu fyrstir þetta afbrigði árið 1998 og nefndu það því NOR98. Í upphafi þá beittu þeir niðurskurðaraðferðarfræðinni á þessi tilfelli, en árið  2004 ákváðu þeir að þess væri ekki lengur þörf og hafa alls fengið um 90 slík tilfelli, öll á mismunandi svæðum í Noregi. Engin ný tilfelli hafa komið  upp í þessum hjörðum, sem hafa verið látnar lifa. Hefðbundin riða hefur fyrst og fremst komið upp í suðvestur Noregi, og við henni er skorið niður með sambærilegum aðferðum og hafa lengi tiðkast hér á landi með góðum árangri. Þessar afbrigðilegu riðutegundir hafa á allra síðustu árum fundist í Nýja Sjálandi og Ástralíu og þarlend yfirvöld hafa ekki beitt niðurskurði í þeim tilfellum. Ný tilfelli hafa ekki komið upp í sömu hjörðum og þessar ákvarðanir hafa ekki haft nein áhrif á milliríkjaviðskipti með lambakjöt, sem er þessum þjóðum gríðarlega mikilvæg.
  • Nauðsynlegt er að taka tillit til þess að bærinn Merki er í Jökuldal og í nágrenninu eru a.m.k.  1500 fjár á nærliggjandi bæjum. Að sumarlagi getur  féð frá Merki verið í samgangi við fé frá þessum bæjum auk fjár úr Fljótsdal. Mikilvægt er að allir fjáreigendur í þessu varnarhólfi hafi skilning á þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru og að ekki sé verið að taka óásættanlega áhættu í þessu máli, því mikill kostnaður var lagður í hreinsun þessa hólfs og miklar fórnir færðar af  hálfu fjáreigenda vegna niðurskurðarins, sem framkvæmdur var fyrir u.þ.b. 20 árum.

Með hliðsjón af ofangreindu þá telur yfirdýralæknir það ásættanlega áhættu að ekki verði farið í fullann niðurskurð á öllu fé á Merki að svo stöddu, heldur verði búið tekið til sérstakrar rannsóknar og að unnið verði samkvæmt eftirfarandi áætlun um mótvægisaðgerðir til að lágmarka hugsanlega áhættu í málinu:

  1. Eins fljótt og auðið er verði fargað öllum kindum á Merki, sem eru fimm ára og eldri, ásamt kindum sem eru mest skyldar jákvæðu kindinni. Heilasýni úr þeim verði rannsökuð  og ákvörðun um frekari niðurskurð tekin í framhaldi af niðurstöðum rannsókna. Finnist eitt eða fleiri jákvætt sýni af afbrigðinu NOR98 eða  hefðbundinni riðu, þá falli aðgerðaráætlun þessi úr gildi og  strax verði óskað eftir því við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðueynið að  niðurskurði verði beytt  á allri hjörðinni, í samræmi við 8. gr. laga nr. 25/1993,  með tilheyrandi sótthreinsunaraðgerðum  og fjárleysi í tvö ár.
  2. Finnist engin jákvæð sýni við niðurskurð nú, þá verði bærinn og nærliggjandi bæir  settir  undir sérstakt eftirlit héraðsdýralæknis.
  3. Næsta haust yrðu um 70 kindur sem eru þá orðnar 5 ára felldar og rannsakaðar. Ef finnst eitt tilfelli af NOR98 í þessum ríflega 70 kindum verður öll hjörðin skorin, sbr. lið a. hér að ofan. Ef ekkert tilfelli finnst í þessum kindum þá  yrði heimilt að kaupa  líflömb að Merki haustið 2012.
  4. Jafnframt yrðu allar fullorðnar kindur á Merki og  nágrannabæjum,  undir sérstöku eftirliti,  og þær  sem  falla eða verða felldar skulu rannsakaðar næstu  árin. Eftir 5 ár, þegar liðin eru 20 ár frá síðasta riðutilfelli í Héraðshólfi, væri sjúkdómastaða þess metin í ljósi þess sem gerst hefur á þessum 5 árum. Komi ekki upp annað tilfelli af  NOR98 eða hefðbundinni riðu á þessum bæjum eða öðrum bæjum í hólfinu er rökrétt að lýsa Héraðshólf riðufrítt að teknu tilliti til þess hvað rannsóknir hafa sýnt um smithættuna af NOR98.

Þar sem enn er margt á huldu um afbrigði þetta, þá telja sérfræðingar á þessu sviði á Keldum og Matvælastofnun mjög nauðsynlegt að við framkvæmd ofangreindrar aðgerðaráætlunar um niðurskurð, verði heilasýni tekin úr öllum fullorðnum kindum frá Merki og öðrum bæjum undir eftirliti um leið og þær eru felldar eða drepast. Sýnum verði komið til greiningar á Keldum til að kanna hvort fleiri tilfelli af þessu afbrigði munu finnast eða jafnvel af hefðbundinni riðu. Ennfremur telja sérfræðingarnir nauðsynlegt í þágu rannsóknarhagsmuna að gerðar verði sérstakar arfgerðargreiningar á öllu þessu fé.

Yfirdýralæknir telur nauðsynlegt að í framhaldi af þessu tilfelli á Merki að Matvælastofnun framkvæmi sérstakt og vandað áhættumat á þessu afbrigði af riðu. Kanna þarf nýjar upplýsingar í hinum alþjóðlega vísindaheimi og einnig breytingu á skilgreiningu sem  hafa verið að koma fram á síðustu misserum um þetta afbrigði. Jafnframt  meta hvort það kunni að vera nauðsynlegt að endurskoða núgildandi fyrirkomulag og móta framtíðarstefnu um til hvaða aðgerða skuli gripið ef þetta afbrigði af riðu greinist aftur hér á landi. Þetta áhættumat gæti einnig orðið liður í hugsanlegum tillögum um nauðsynlegar lagabreytingar þ.a.l.

Yfirdýralæknir telur, að miðað við að ofangreind aðgerðaráætlun verði samþykkt, þá sé það ásættanleg áhætta að fylgja henni og hefur þegar mælt með því við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að ráðuneytið gangi  sem allra fyrst til samninga við ábúendur á Merki um framkvæmd áætlunarinnar. Þar komi m.a. fram að fullar förgunarbætur og afurðatjónsbætur verði greiddar fyrir allar kindur sem hafa verið felldar og verði felldar vegna áætlunarinnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?