Fara í efni

Aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi á matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun, heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og tollgæslan tóku þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn innflutningi og sölu á fölsuðum og ólöglegum matvælum og drykkjum. Aðgerðirnar stóðu yfir þann 3-9. desember s.l. og eru hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni Europol og Interpol. Í aðgerðunum var lagt hald á ólöglega innflutta mjólk í stórmarkaði og innflutningur á sjávarafurðum var stöðvaður. 

Hér á landi skoðuðu tollayfirvöld og Matvælastofnun matvælasendingar frá fyrirfram ákveðnum ríkjum en Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitið framkvæmdu markaðseftirlit innanlands. Í aðgerðunum var m.a. lagt hald á niðursoðna mjólk sem flutt var inn með ólöglegum hætti. Mjólkin var til sölu í stórmarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Ennfremur var innflutningur á sjávarafurðum stöðvaður á landamærastöð Matvælastofnunar. Í báðum tilfellum var ekki farið eftir reglum er gilda um innflutning á matvælum af dýrauppruna frá löndum utan EES. 

Samstarfsverkefnið ber heitið Opson II og er liður í baráttunni gegn sölu og dreifingu á hvers kyns fölsuðum og ólöglegum vörum, allt frá hversdagslegum matvörum eins og kjöti, fiski, kaffi og súkkulaðistykkjum uppí lúxusvörur eins og trufflur og kavíar. Alls tóku 29 lönd þátt í verkefninu. Brotastarfsemin reynist oft vera hluti af skipulagðri glæpastarfsemi en í aðgerðum tengt Opson II hefur alls verið lagt hald á rúmlega 235 tonn af vörum og matvælum sem margar eru taldar vera hættulegar neytendum. Framkvæmd verkefnisins á Íslandi var í samstarfi við tengslafulltrúa Íslands hjá Europol og alþjóðadeild ríkislögreglustjóra.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?