Fara í efni

50 kettir teknir af umráðamanni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun framkvæmdi vörslusviptingu á 50 köttum í síðustu viku. Köttunum var haldið í iðnaðarhúsnæði við bágar aðstæður þar sem umönnun og þrifnaði var verulega ábótavant. Köttunum hefur nú verið komið fyrir hjá Dýrahjálp, í Kattholti og í Kisukoti þar sem þeim verður ráðstafað á ný heimili.

Í kjölfar ábendingar um umfangsmikið kattahald í iðnaðarhúsnæði í Reykjavík hafði Matvælastofnun samband við umráðamann húsnæðisins. Umráðamaðurinn meinaði eftirlitsmönnum stofnunarinnar aðgang að staðnum. Matvælastofnun fékk dómsúrskurð til að framkvæma eftirlit sem fór fram í síðustu viku. Eftirlitið leiddi í ljós umfangsmikið kattahald við slæmar aðstæður og var tekin ákvörðun um vörslusviptingu í framhaldinu.

Vörslusvipting var framkvæmd með aðstoð lögreglu tveimur dögum síðar. Umráðamaður reyndist ósamvinnuþýður og var handtekinn af lögreglu í kjölfarið. Lagt var hald á 50 ketti á staðnum. Kettirnir voru heilbrigðisskoðaðir af dýralæknum. Lóga þurfti tveimur köttum að skoðun lokinni. 

Umráðamanni kattanna var veittur tveggja daga andmælafrestur. Andmæli bárust ekki innan tilgreinds frest og hefur dýrunum nú verið komið fyrir hjá Dýrahjálp, í Kattholti og í Kisukoti. Einungis einn kattanna var örmerktur, aðrir kettir voru ómerktir. Kattaeigendum sem telja að kettir þeirra geti verið meðal þessara katta er bent á að setja sig í samband við þessa aðila. Matvælastofnun þakkar Dýraspítalanum í Víðidal, Dýrahjálp, Kattholti, Kisukoti og Hundahótelinu Leirum fyrir þeirra framlag. Sömuleiðis þakkar stofnunin góða aðstoð dýraeftirlits Reykjavíkurborgar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þrjár vörslusviptingar gæludýra hafa verið framkvæmdar af Matvælastofnun í Suðvesturumdæmi síðasta árið í kjölfar ábendinga. Matvælastofnun vekur athygli á ábendingahnappinum á vefsíðu sinni, www.mast.is, ef grunur leikur á um illa meðferð á dýrum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?