Vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja
Dagana 12.-18.nóvember 2018 er alþjóðleg vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja. Sýklalyf eru notuð til að meðhöndla sýkingar af völdum baktería hjá mönnum og dýrum. Röng og óhófleg notkun á sýklalyfjum getur leitt til þess að bakteríur mynda þol gegn sýklalyfjum og geta slíkar bakteríur borist á milli manna, dýra og umhverfis.
Ef sýklalyfjaónæmi heldur áfram að aukast þá verður erfiðara að meðhöndla marga sjúkdóma hjá mönnum og dýrum. Sýklalyfjaónæmi er ógn sem steðjar að allri heimsbyggðinni og til að berjast gegn þessari vá þarf að taka höndum saman úr öllum áttum - hjá mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi.
Við höfum öll hlutverki að gegna í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi og hefur Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (OIE) í tilefni af vitundarvikunni sett í loftið vefsíðu sem fjallar um skynsamlega notkun sýklalyfja þar sem hægt er að finna ábendingar um hvað dýraeigendur, dýralæknar, yfirvöld, lyfjaframleiðendur, fóðurframleiðendur og heildsalar geta gert til að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja. Þar er einnig að finna próf sem dýraheilbrigðisstarfsmenn og dýraeigendur geta spreytt sig á til að kanna þekkingu sína á sýklalyfjum.
OIE stóð fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Marokkó 29.-31. október s.l. um sýklalyfjaónæmi og skynsamlega notkun sýklalyfja þar sem þátttakendur voru rúmlega 500 og voru þar saman komnir aðilar frá öllum heimshornum, bæði frá stjórnvöldum, opinberum stofnunum, háskólastofnunum og einkaaðilum til þess að ræða hugmyndir og lausnir við þessu vaxandi hnattræna vandamáli. Aðaláherslan á ráðstefnunni var hlutverk dýraheilbrigðis enda er mikilvægið í að fyrirbyggja sýklalyfjaónæmi í landbúnaði nátengt áhrifum á heilsu manna ásamt öryggi matvæla. Áberandi var í umræðunni mikilvægi samstarfs allra aðila þegar unnið er að gerð landsáætlunar sem miðar að því að draga úr myndun og útbreiðslu á sýklalyfjaónæmi.
Í lok ráðstefnunnar voru dregnar saman nokkrar tillögur sem snúa ýmist að OIE, OIE aðildarlöndum og samstarfi OIE, Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO), Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og fleiri. Þar er meðal annars lögð áhersla á frekari rannsóknir á bóluefnum og öðrum möguleikum en sýklalyfjum, að notkun á sýklalyfjum í vaxtarhvetjandi tilgangi verði hætt og að dýralæknar, dýraheilbrigðisstarfsmenn og bændur vinni náið saman til að tryggja skynsamlega og ábyrga notkun á mikilvægum lyfjum. Hægt er að lesa meira um ráðstefnuna í fréttatilkynningu OIE ásamt frekari upplýsingum um ráðstefnuna sjálfa (t.d. upptökur af fyrirlestrum) á vefsíðu ráðstefnunnar.
Ítarefni
- Vefsíða Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) um skynsamlega notkun sýklalyfja
- Vefsíða Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) um sýklalyfjaónæmi
- Vefsíða Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um sýklalyfjaónæmi
- Vefsíða Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um vitundarviku um skynsamlega notkun sýklalyfja
- Vefsíða Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) um vitundarviku um skynsamlega notkun sýklalyfja
- Greinargerð starfshóps um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi
- Sýklalyfjanotkun og -ónæmi 2017 - frétt Matvælastofnunar frá 02.10.18