Fara í efni

Vítaverður innflutningur notaðra járningaáhalda

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun barst í vikunni ábending um erlendan dýralækni og járningamann sem kom með notuð járningaáhöld, svuntu og vinnuskó til landsins og notaði við sjúkrajárningar á Suðurlandi. Héraðsdýralæknir kannaði strax hvort ábendingin ætti við rök að styðjast og reyndist svo vera, en viðkomandi var þá farinn af landi brott með sín áhöld. Að flytja inn notuð áhöld og búnað er alvarlegt brot gegn íslenskum lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Stofnunin hefur þegar skrifað hlutaðeigandi aðilum bréf og gert þeim grein fyrir alvarleika málsins.

Gerðar hafa verið ráðstafanir til að hindra útbreiðslu á mögulegu smiti. Flutningur hrossa frá þjálfunarstöðinni, þar sem áhöldin voru notuð, hefur verið takmarkaður. Allir hestar sem þar eru, hafa verið settir undir aukið eftirlit og kröfur gerðar um sérstakar smitvarnir. Enginn hestur má fara frá þjálfunarstöðinni án samþykkis héraðsdýralæknis og gildir sú ráðstöfun í a.m.k. fjórar vikur eða þar til hægt er með nokkurri vissu að álíta að smit hafi ekki borist í hesta á þjálfunarstöðinni.

Matvælatofnun brýnir fyrir hestamönnum ábyrgð þeirra á að verjast smiti, hver og einn verður að verja sína hesta og sín hesthús, of seint er að verjast þegar smit er komið. Ekki taka á móti fólki erlendis frá í hesthús eða annað umhverfi hesta nema tryggt sé að reglur um smitvarnir hafi verið virtar við komuna til landsins. Fáið veggspjöld hjá Matvælastofnun til að hengja upp við inngang í hesthús þar sem fólk kemur oft erlendis frá.

Reglur til varnar því að smitsjúkdómar berist í íslenska hrossastofninn 

Byggðar á lögum  um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.

Óheimilt að flytja til landsins:

  1. Notuð reiðtygi, þ.m.t. mél , hlífar, ábreiður og annan búnað sem notaður hefur verið í hestamennsku
  2. Notaða reiðhanska
  3. Ósótthreinsuð reiðföt, þ.m.t. hjálma og skófatnað og annan óhreinan fatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta
  4. Notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þ.m.t. járningaáhöld, hestakerrur og önnur tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði

Mikil áhætta er fólgin í innflutningi notaðra reiðtygja, méla og annars búnaðar og áhalda sem notuð eru í hestamennsku og er hann því alfarið bannaður. Notaðir reiðhanskar eru ennfremur taldir bera með sér sérlega mikla smithættu og teljast því með búnaði sem bannað er að koma með til landsins.

Reglur um sótthreinsun á fatnaði og skóm sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis  

  • Notaðir reiðskór/stígvél og annar skófatnaður  sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis
    o Sótthreinsun: Skófatnaðurinn skal þveginn vel og þurrkaður. Þar á eftir úðaður með Virkoni og látinn þorna og bíða í 5 daga eftir sótthreinsun áður en hann er notaður í umhverfi hesta á Íslandi
  • Notaðir reiðhjálmar:
    o Sótthreinsun: Hjálmar skulu þvegnir vel með sápulegi og þurrkaðir. Þar á eftir úðaðir með Virkoni og látnir þorna og bíða í 5 daga eftir sótthreinsun áður en þeir eru notaðir í umhverfi hesta á Íslandi
  • Notaður reiðfatnaður og annar fatnaður sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis  
    o Ígildi sótthreinsunar: Fatnaðurinn skal þveginn í þvottavél og þurrkaður eða þurrhreinsaður.  

Þvottur/hreinsun á reiðfatnaði og sótthreinsun á reiðskóm skal eiga sér stað áður en komið er til landsins. Að öðrum kosti skal framvísa notuðum reiðfatnaði, þ.m.t. hjálmum og skófatnaði  í rauða hliðinu á Keflavíkurflugvelli og nýta hreinsiþjónustu með heimsendingu sem þar er í boði gegn gjaldi. Fatahreinsunin tekur ekki við leður- og vaxjökkum.

Annan fatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta er heimilt að flytja inn í lokuðum plastpokum og hreinsa samkvæmt framangreindum leiðbeiningum strax eftir heimkomu. 

Að gefnu tilefni er tekið fram að frysting er ekki sótthreinsun. Hún getur þvert á móti lengt líftíma tiltekinna smitefna.

Önnur góð ráð fyrir hestamenn sem ferðast til annara landa    

  • Hafið ævinlega með ykkur hreinan fatnað og skó til heimferðar  
  • Veljið fatnað til notkunar í umhverfi hesta erlendis sem auðvelt er að þvo og hreinsa
    o Notið ekki leðurfatnað og vaxjakka svo eitthvað sé nefnt
  • Veljið fatnað til notkunar í umhverfi hesta erlendis sem ekki er notaður í hestamennsku hér heima
    o þann fatnað þarf samt að þvo og sótthreinsa skv. framangreindum reglum
  • Þeir sem ferðast mikið milli landa ættu að geyma fatnað á bækistöðvum sínum erlendis

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?