Fara í efni

Viðbúnaður dýraeigenda vegna náttúruhamfara

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í ljósi þess að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi almannavarna á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu, hvetur Matvælastofnun ábyrgðarmenn dýra á svæðinu til að gera áætlanir og undirbúa viðbrögð í því skyni að draga úr hættu á slysum og þjáningum dýranna.

Allir eigendur dýra og umráðamenn fyrirtækja með starfsemi með dýr, ættu að gera áætlanir og undirbúa viðbrögð eftir því sem kostur er. Hver og einn þarf að velta fyrir sér hvernig hann telur að dýrum í hans umsjá sé best borgið við þær aðstæður sem kunna að skapast.

Komi til þess að flytja þurfi sauðfé burt af svæðinu þarf að hafa í huga að vegna riðu má ekki flytja fé í önnur varnarhólf, nema með aðkomu Matvælastofnunar. Svæðið tilheyrir Landnámshólfi, sem skiptist í sýkt og ósýkt svæði hvað varðar riðu. Innan sýkta svæðisins eru sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði og Grímsnes- og Grafningshreppur en í ósýkta hlutanum eru sveitarfélögin á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Fé má ekki flytja frá sýktu svæði til ósýkts. Því þurfa fjáreigendur á Reykjanesi að leitast við að finna stað í ósýkta hluta hólfsins, til að flytja féð á ef nauðsyn krefur. Ef enginn kostur innan ósýkts svæðis er mögulegur skal samband haft við Matvælastofnun sem mun þá meta þau úrræði sem völ er á.

Meðal þess sem dýraeigendur þurfa að íhuga varðandi dýr sem ekki er hægt að flytja á brott, er hvort aðrir geti sinnt þeim ef þeir sjálfir eru ekki í stakk búnir til þess eða hafa þurft að yfirgefa þau í skyndi. Til að auðvelda björgunarsveitum eða öðrum ókunnugum umhirðu dýranna, ættu eigendur að leitast við að hafa eftirtaldar upplýsingar uppfærðar og sýnilegar á þeim stað sem dýrin eru:

  1. Nöfn, heimilisföng og símanúmer þeirra sem þekkja best til
  2. Upplýsingar um hvar finna megi lista yfir dýrin með númerum og/eða öðrum einkennum
  3. Upplýsingar um veikindi dýra, burði og aðra mikilvæga þætti
  4. Upplýsingar um fjölda dýra og staðsetningu þeirra í húsum og beitarhólfum
  5. Kort yfir hús og beitarhólf
  6. Leiðbeiningar um helstu verk, s.s. fóðrun og mjaltir
  7. Upplýsingar um fóður, s.s. staðsetningu og birgðir
  8. Upplýsingar um stjórnun mikilvægs tækjabúnaðar, s.s. mjalta-, fóður- og loftræstikerfis, vararafstöðva o.s.frv.

Í þessu sambandi er einnig minnt á mikilvægi þess að einstaklingsmerkja og skrá gæludýr, hross og önnur dýr sem hætta er á að sleppi úr haldi og lendi á flækingi við skyndilegar náttúruhamfarir, meðal annars til að auðveldara sé að koma þeim til síns heima.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?