Fara í efni

Viðbrögð vegna díoxíns

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Haldinn var fundur í samstarfsnefnd um sóttvarnir þar sem rætt var um nýlegar mælingar á díoxínmengun í mjólk og kjöti í Skutulsfirði, nálægum fjörðum og á Svínafelli. Fundinn sátu fulltrúar Matvælastofnunar, Sóttvarnarlæknis og Umhverfisstofnunar. Einnig komu á fundinn sérfræðingar í eiturefnafræðum.

Ákveðið var á fundinum að haldnir verði borgarafundir í nágrenni eldri sorpbrennslna á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og í Vestmannaeyjum þar sem fulltrúar Matvælastofnunar, Sóttvarnarlæknis og Umhverfisstofnunar munu kynna stöðu mála og næstu skref fyrir íbúum.



  
Frumathuganir benda ekki til merkjanlegra eitrunaráhrifa samkvæmt upplýsingum sóttvarnarlæknis.  Sóttvarnarlæknir mun engu að síður standa að rannsóknum á fólki til að ganga úr skugga um hvort díoxín hafi borist í fólk og þá í hvaða magni. Nánar verður greint frá því hvernig rannsóknum verður háttað á næstu dögum og þær gerðar eins fljótt og auðið er.
 

Talið er mjög ólíklegt að það kjöt og mjólk sem hugsanlega var yfir mörkum á díoxíni og fór á markað hafi heilsufarsáhrif á fólk. Mælingar benda til að lítill hluti af sex hálfu tonni af kjöti sem fór á markaði hafi verið yfir mörkum, af þeim fóru fimm tonn af kjöti til útflutnings en eitt og hálft tonn fór ferskt á innanlandsmarkað og sennilega ekkert af því lengur á markaði. Matvælastofnun vinnur að því að kanna hvert kjötið fór og taka það af markaði ef enn er eitthvað í dreifingu.


Matvælastofnun mun á næstu dögum vinna áfram með málið í samráði við landeigendur í Skutulsfirði. Matvælastofnun hefur ákveðið að gera fleiri mælingar á díoxíni í búfjárafurðum í nálægð við eldri sorpbrennslur á næstunni. Sala á búfjárafurðum hefur verið stöðvuð frá þeim bæjum þar sem díoxín mældist með hækkuð gildi og yfir mörkum. Mæling á díoxín í búfjárafurðum á Svínafelli þar sem starfrækt er eldri sorpbrennsla var undir mörkum. Niðurstöður úr díoxínmælingum á mjólkursýnum úr nærliggjandi fjörðum, Álftafirði, Önundarfirði og Súgandafirði eru í lagi og það bendir eindregið til þess að um staðbundna díoxínmengun er að ræða.

Umhverfisstofnun hefur lagt mat á þekktar uppsprettur díoxíns á Íslandi. Heildarlosun díoxíns á Íslandi hefur minnkað um 66% frá 1990, þar af um 82% frá úrgangsmeðhöndlun.  Í ljósi niðurstaðna díoxínmælinga í búfjárafurðum hefur stofnunin ákveðið að taka jarðvegssýni í nágrenni mögulegra uppsprettna á díoxíni. Tilgangurinn er að meta áhrif á umhverfið og lífríkið og í framhaldinu ákveða hvort bregðast verði við. Tekin verða sýni eins fljótt og auðið er og niðurstöður kynntar almenningi. Meðal mögulegra uppsprettna á díoxín eru áramótabrennur, sorpbrennslur og stóriðja en áætlunin verður kynnt á næstu dögum.


Ítarefni



Nánari upplýsingar veita:

    Matvælastofnun:
    Kjartan Hreinsson - 858-0874
    Sigurður Hansson - 862-9002

    Sóttvarnarlæknir:
    Haraldur Briem - 898-6008

    Umhverfisstofnun:
    Kristinn Már Ársælsson - 822-4026


Getum við bætt efni síðunnar?