Fara í efni

Verkfall og undanþágur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun birti frétt á heimasíðu sinni þann 9. apríl 2015 um áhrif verkfalls á starfsemi stofnunarinnar. Nú þegar hafa borist nokkrar undanþágubeiðnir komi til verkfalls frá 20. apríl 2015, sem lúta að því að starfsmenn Matvælastofnunar verði kallaðir tímabundið til starfa í sláturhúsum. Stofnunin vill beina því til þeirra sem óska eftir undanþágum frá verkfalli að senda Matvælastofnun umsókn þess efnis.

Sótt er um undanþágu með því að fylla út þar til gert eyðublað sem nálgast má á vef Matvælastofnunar, www.mast.is, undir „Eyðublöð“,  eða hér að neðan. Fylla skal út eyðublaðið og senda á netfangið mast@mast.is. Stofnunin hefur skipað verkfallshóp sem í eiga sæti yfirdýralæknir, forstöðumaður stjórnsýslusviðs og forstjóri. Hlutverk hópsins er að fara yfir undanþágubeiðnir og koma þeim til hlutaðeigandi undanþágunefndar. Mikilvægt er að í umsókn sé gerð nákvæm grein fyrir undanþágubeiðni, þ.e. forsendum hennar, hvaða starf er um að ræða og afleiðingum ef verkið er ekki unnið.

Í undanþágunefndum sitja tveir fulltrúar, einn frá hvorum deiluaðila. Ákvarðanir um kvaðningu til vinnu skulu teknar af báðum nefndarmönnum og eru þær endanlegar. Mál sem varða störf Matvælastofnunar geta komið til umfjöllunar í þremur undanþágunefndum, þar sem situr einn fulltrúi stjórnsýslunnar og síðan ýmist fulltrúi frá Dýralæknafélagi Íslands, Stéttarfélagi háskólamanna á matvæla- og næringarsviði eða Félagi íslenskra náttúrufræðinga. Félagsmenn þessara stéttarfélaga sem starfa hjá Matvælastofnun hafa boðað ótímabundið verkfall frá 20. apríl n.k.  

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?