Fara í efni

Velferð sauðfjár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur tekist á við óvenju mörg stór dýravelferðarmál í vetur. Sauðfjárbú hafa verið þar í meirihluta. Í fimm málum hefur þurft að farga sauðfé vegna vanfóðrunar, samtals um 170-180 kindum, og eru þá ótalin önnur mál vegna annarskonar athugasemda. Mikil vinna er lögð í þessi mál hjá Matvælastofnun og málum fylgt fast eftir og brot eftir atvikum kærð til lögreglu. Þrír sauðfjárbændur hafa verið kærðir til lögreglu í vetur og verður kæra lögð fram í tveimur málum til viðbótar vegna umhirðu sauðfjár.

Skortur á aðbúnaði sauðfjár og léleg fóðrun og umhirða er of algeng. Þá er jafnframt það hirðuleysi ólíðandi að smala ekki fé saman að hausti til að sinna því með fullnægjandi hætti yfir veturinn. Frásagnir að eftirlitið sinni ekki dýravelferðarmálum með viðunandi hætti eiga ekki við rök að styðjast, enda sýnir sá fjöldi mála þar sem gripið hefur verið til aðgerða og sú festa sem gætir við framkvæmd aðgerða af hálfu Matvælastofnunar aðra sögu. Matvælastofnun beitir í málum sem þessum úrræðum á borð við að taka sauðfé úr vörslum bænda, slátra fé og kæra brot til lögreglu.

Þá er minnt á að allir geta komið ábendingum, um slæma meðferð dýra, á framfæri við héraðdýralækna Matvælastofnunar.


Getum við bætt efni síðunnar?