Fara í efni

Velferð hrossa á útigangi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Hross á útigangi skulu hafa aðgang að beit eða heyi sem uppfyllir þarfir þeirra til viðhalds og framleiðslu, vatni og steinefnum. Æskilegt er að hross hafi aðgang að rennandi vatni en þau bjarga sér vel á snjó. Ef fullnægjandi náttúrulegt skjól er ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem ganga í þrjár stefnur eða mynda með öðrum hætti skjól úr öllum áttum.

  Mikilvægt er að flokka útigangshross eftir fóðurþörfum og skipuleggja beit og fóðrun í samræmi við það. Mjólkandi hryssur, folöld og trippi í vexti þurfa greiðan aðgang að fóðri á meðan fullorðin hross, einkum þau sem eru í ríflegum holdum, geta komist af með minna. Ekki er skynsamlegt að hross leggi af snemma vetrar ef þeim er ætlað að vera á útigangi allan veturinn.

Eigendur þurfa að fylgjast vel með holdafari hrossa sinna sem og beitilandinu. Hross geta lengi krafsað í góða beit þótt snjór sé nokkur en snoðin hólf kalla á heygjöf óháð jarðbönnum.  Því miður sýnir reynslan að mönnum hættir til að ofmeta beit í vetrarhólfum.

Þeir sem verða varir við hross sem skortir fóður eru beðnir að tilkynna það til forðagæslu viðkomandi sveitarfélags. Ef grunur leikur á að hross séu í svelti og/eða orðin verulega aflögð skal hafa samband við héraðsdýralækni. Upplýsingar um héraðsdýralækna er að finna á vef Matvælastofnunar undir Héraðsdýralæknar.
Til nánari fróðleiks er vísað í Reglugerð um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa 160/2006.


Getum við bætt efni síðunnar?