Fara í efni

Veiðar á stórhvelum samræmast ekki markmiðum laga um velferð dýra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun (MAST) hefur tekið saman skýrslu vegna eftirlits við veiðar á langreyðum við Ísland árið 2022. Veiðar á langreyðum hófust á ný í júní það ár og veiddust 148 hvalir á veiðitímabilinu.

MAST telur sérstaka ástæðu til að farið verði ítarlega yfir öll gögn og í kjölfarið metið hvort veiðar á stórhvelum geti uppfyllt markmið laga um velferð dýra.

Hvalirnir voru allir skoðaðir af eftirlitsdýralækni MAST í landi. Þá var viðhaft eftirlit með veiðum á 58 hvölum um borð í hvalveiðibátunum af hálfu starfsmanna Fiskistofu í umboði MAST.

Af þeim 148 hvölum sem voru veiddir, voru 36 hvalir (24%) skotnir oftar en einu sinni. Þar af voru fimm hvalir skotnir þrisvar og fjórir hvalir skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var veitt eftirför í 5 klst án árangurs.

Niðurstöður eftirlits um borð með veiðum á 58 hvölum leiddi í ljós:

  • 35 (59%) hvalir drápust samstundis samkvæmt skilgreiningu Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) um hvenær hvalur telst dauður við hvalveiðar.
  • Til viðbótar er talið líklegt að fimm hvalir sem sýndu krampa hafi misst meðvitund samstundis eða mjög hratt, og því talið að 67% hvalanna hafi drepist eða misst meðvitund fljótt eða samstundis.
  • 14 hvalir (24%) voru skotnir oftar en einu sinni.
  • Tvo hvali þurfti að skjóta fjórum sinnum, tæpa klukkustund tók að aflífa annan hvalinn og hinn tvær klukkustundir.
  • Miðgildi tíma frá fyrsta skoti til dauða hvala sem drápust ekki strax var 11,5 mínútur.

MAST telur að aflífun á hluta stórhvela við veiðar á Íslandi hafi tekið of langan tíma út frá meginmarkmiðum laga um velferð dýra. Stofnunin telur hins vegar að við veiðarnar hafi verið beitt bestu þekktu aðferðum miðað við þær aðstæður sem þessar veiðar eru stundaðar við og því hafi ákvæði um veiðar í lögum um velferð dýra ekki verið brotin.

MAST mun fela fagráði um velferð dýra að fara yfir fyrirliggjandi gögn og meta hvort veiðar á stórhvelum geti yfir höfuð uppfyllt markmið laga um velferð dýra. Ef slíkt er talið mögulegt, þurfa stjórnvöld að setja reglugerð um framkvæmd veiðanna og lágmarkskröfur við þær.

Matvælastofnun telur þörf á áframhaldandi eftirliti á komandi vertíð. Vert er að taka fram að skv. gildandi veiðileyfi og lögum um velferð dýra er ábyrgð á að aflífun dýranna sé með ásættanlegum hætti ávallt á höndum framkvæmdaraðila.

 

Frekari upplýsingar: Hrönn Ólína Jörundsdóttir


Getum við bætt efni síðunnar?