Fara í efni

Varúðarráðstöfunum vegna fuglaflensu aflétt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Starfshópur vegna fuglaflensu, sem í sitja sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, telur nú litlar líkur á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu sé til staðar í villtum fuglum hér á landi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið felldi úr gildi í dag þær tímabundnu varúðarráðstafanir sem fyrirskipaðar voru með auglýsingu nr. 241/2017, að tillögu Matvælastofnunar.

Frá mars á þessu ári hafa borist 26 tilkynningar um samtals 54 dauða fugla. Ekki var í öllum tilvikum hægt að taka sýni vegna þess að hræin voru uppétin eða horfin þegar sýnatökumaður mætti á staðinn. Í einhverjum tilvikum var ekki talin ástæða til að taka sýni vegna vísbendingar um að viðkomandi fugl hafi slasast en hafi líklega ekki verið veikur. Sýni voru tekin úr 14 fuglum og hafa þau öll verið neikvæð. Auk þess bendir lítill fjöldi tilkynninga til þess að ekki hafi verið óeðlileg veikindi og dauðsföll í villtum fuglum.

Til viðbótar voru tekin sýni úr 120 álftum sem voru nýkomnar til landsins og komu frá svæðum sem fuglaflensa hefur greinst á. Þau sýni hafa öll verið neikvæð. Sama niðurstaða fékkst úr 39 sýnum úr heiðargæsum, ekki greindist fuglaflensa í þeim. Sýnin voru tekin af fuglafræðingi frá Háskóla Íslands og allar rannsóknir fóru fram á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Fá tilfelli fuglaflensu hafa komið upp í Evrópu undanfarið. Komið er vor og hitastig fer hækkandi sem minnkar líkur á að fuglaflensuveirur, ef þær eru til staðar, geti lifað lengi í umhverfinu. Flestir farfuglar eru þegar komnir til landsins.

Með hliðsjón af þessum þáttum, sem nefndir eru hér, komst starfshópurinn að þeirra niðurstöðu að litlar líkur séu á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu sé til staðar í villtum fuglum hérlendis, þótt ekki sé hægt að útiloka það. Smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi eru litlar, sérstaklega þar sem góðar smitvarnir eru til staðar til að fyrirbyggja smit frá villtum fuglum. Samkvæmt auglýsingu ráðuneytisins er þess ekki lengur krafist að alifuglar og aðrir fuglar í haldi séu haldnir í lokuðu gerði og undir þaki eða innandyra. En þar sem ekki er hægt að útiloka að skæðar fuglaflensuveirur séu til staðar hérlendis, eru fuglaeigendur áfram hvattir að viðhalda góðum smitvörnum skv. ráðleggingum Matvælastofnunar um viðbúnaðarstig 1, sjá hér að neðan.  Nánari leiðbeiningar veitir Matvælastofnun í síma 530-4800.

Mikilvægt er að fuglaeigendur fylgist áfram náið með heilbrigði fugla sinna og tilkynni tafarlaust til Matvælastofnunar um aukin dauðsföll eða grunsamleg veikindi meðal þeirra. Almenningur er áfram beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar um dauða villta fugla þegar orsök er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, rúður eða fyrir bíla.

Viðbúnaðarstig 1: Lítil hætta

Þetta viðbúnaðarstig er alltaf í gildi.

Tilkynningar

  1. Tilkynna skal til Matvælastofnunar um dauða villta fugla, þegar orsök dauða er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla.
  2. Aukin dauðsföll eða grunsamleg veikindi í alifuglum og öðrum fuglum í haldi skal tilkynna til Matvælastofnunar.
       Leiðbeinandi viðmið:
        - Minnkun á fóðurnotkun og vatnsnotkun um meira en 20%.
        - Minnkun á varpi um meira en 5% á tveimur dögum.
        - Afföll meiri en 3% á einni viku.
        - Sjúkdómseinkenni, s.s. bólginn haus, öndunarerfiðleikar, niðurgangur og blæðingar í húð á fótum, sjá nánar hér.

Lágmarks smitvarnir fyrir alifugla og aðra fugla í haldi

  1. Forðast skal að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla.
  2. Fóður og drykkjarvatn skal ekki aðgengilegt villtum fuglum.
  3. Fuglahúsum skal vel við haldið.
  4. Almennar góðar smitvarnir skulu viðhafðar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?