Fara í efni

Útgáfa rekstrarleyfis kærð en úrskurðarnefnd vísar kærunni frá

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í maíbyrjun 2016 gaf Matvælastofnun út nýtt rekstrarleyfi til Arnarlax h/f vegna fiskeldis í Arnarfirði.  Um var að ræða verulega aukna framleiðslu.  Fyrra rekstrarleyfi sem Fiskistofa gaf út heimilaði framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi í sjókvíum á ári en nýja leyfið heimilar allt að 10.000 tonna ársframleiðslu.  Aukningin er því 7.000 tonn.


Með lagabreytingu færðist framkvæmd stjórnsýslunnar á þessu sviði frá Fiskistofu til Matvælastofnunar og tók sú breyting gildi 1. janúar 2015.


Eigendur laxveiðiár á Vesturlandi kærðu í júlí sl. útgáfu rekstrarleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Þeir töldu sig eiga mikilla hagsmuna að gæta þar sem lífríki árinnar væri stefnt í hættu og villtum lax- og silungsstofnum hennar, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun.  Slíkt gæti gerst ef og þegar lax slyppi úr sjókvíum.  Enn fremur töldu kærendur að Matvælastofnun hefði ekki staðið rétt að útgáfu leyfisins.


Í umsögn Matvælastofnunar um kæruna kom fram að umsóknin hefði verið að fullu unnin í samræmi við lög og reglugerðir á þessu sviði.


Úrskurðarnefndin vísaði málinu frá nefndinni með úrskurði 11. ágúst sl.  Byggist frávísunin á því að kærendur séu eigendur laxveiðiár sem renni til sjávar í Faxaflóa. Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimili sé hins vegar í Arnarfirði á Vestfjörðum.  Samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina verða kærendur að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun til þess að hægt sé að taka kæruna fyrir.  Þar sem umrætt laxeldi sé fjarri umræddri laxveiðiá yrði ekki séð að kærendur hefðu hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna mætti telja.   Málinu var því vísað frá.



Getum við bætt efni síðunnar?