Fara í efni

Útgáfa ótímabundinna starfsleyfa

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli og 4. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru gefur Matvælastofnun út starfsleyfi til þeirra fyrirtækja sem stofnunin hefur eftirlit með og uppfylla ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Með lögum nr. 101/2020 og 71/2021 voru gerðar breytingar á fyrrnefndum lagabálkum þess efnis að starfsleyfi skulu gefin út án tímabindingar.  Vegna þessara breytinga þurfa starfsleyfishafar ekki að sækja um endurnýjun á leyfum vegna óbreytts reksturs.

Þau starfsleyfi sem Matvælastofnun hefur gefið út frá árinu 2010 eru með 12 ára gildistíma. Með vísan til framangreinds framlengjast starfsleyfi fyrirtækjanna ótímabundið án sérstakrar umsóknar þar um. Framlenging núverandi starfsleyfa er þó háð því að ekki hafi orðið breytingar á starfsemi viðkomandi starfsstöðvar.   

Matvælastofnun vinnur að rafrænni útfærslu á útgáfu starfsleyfa.  Tilkynning mun birtast þar um þegar þeirri vinnu er lokið.


Getum við bætt efni síðunnar?