Fara í efni

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru varðandi ófullnægjandi merkingar á sláturgrip

Matvælaráðuneytið hefur í úrskurði staðfest ákvörðun Matvælastofnunar að hafna því að veita bónda undanþágu vegna ófullnægjandi einstaklingsmerkinga á nautgrip sem sendur var í sláturhús og var skrokknum fargað af þeim sökum.

Innleggjandi sendi fimm nautgripi til slátrunar og við innlögnina fylgdu matvælaferilsupplýsingar, þ.m.t. upplýsingar um einstaklingsmerkingar gripanna og að þeir hefðu ekki fengið nein lyf síðustu sex mánuði eða efni þar sem útskolunartími væri ekki liðinn. Við heilbrigðisskoðun eftirlitsdýralæknis í sláturhúsi kom í ljós að einn gripurinn var merktur með einstaklingmerki grips sem áður hafði verið slátrað. Innleggjandi óskaði þá eftir undanþágu og upplýsti að vegna mistaka hefði rangt merki verið pantað í gripinn. Matvælastofnun fór fram á nánari upplýsingar um gripinn. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna hafnaði stofnunin síðan beiðni um undanþágu þar sem innleggjandi gat ekki lagt fram fullnægjandi gögn um rekjanleika gripsins að mati stofnunarinnar, en einungis er heimilt að veita undanþágu þegar fullvíst þykir að um tiltekin grip er að ræða. Rekjanleiki matvæla væri ekki tryggður sem er ófrávíkjanleg krafa í löggjöf um matvæli. Innleggjandi fór þá fram á að fá skrokkinn afhendan eftir slátrun í stað þess að honum yrði fargað og var þeirri beiðni jafnframt hafnað af hálfu Matvælastofnunar. Ekki væri heimilt að afhenda óstimplaða skrokka úr sláturhúsi og slíkum skrokkum skuli fargað til að gæta matvælaöryggis.

Í úrskurðinum segir að tilgangur laga um matvæli sé að tryggja, svo sem kostur er gæði, öryggi og hollustu matvæla, skoða þurfi allt matvælaferlið sem eina heild, allt frá frumframleiðslu og til sölu eða afhendingar matvæla til neytenda. Ein af meginreglum löggjafarinnar er að hægt sé að rekja feril matvæla. Einungis sé heimilt að heilbrigðismerkja skrokka í sláturhúsum þegar fyrir liggi fylgni við lög og reglur, þ.m.t. að frumframleiðandi sé búinn að auðkenna dýr sem send eru til slátrunar með réttum hætti, til að unnt sé að rekja uppruna þeirra sem og að sláturhús taki einungis við dýrum sem hafi verið rétt auðkennd, þannig að hægt sé að tengja saman upplýsingar um auðkenni og upplýsingar um matvælaferlið.

Ráðuneytið taldi að málsmeðferð stofnunarinnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við gildandi lög og reglur.

Ítarefni:  Úrskurður


Getum við bætt efni síðunnar?