Fara í efni

Upplýsingar vegna veikinda í hrossum að Hringsholti á Dalvík

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Um miðjan janúar fór að bera á veikindum í hrossum í hesthúsunum að Hringsholti á Dalvík og eins í nokkrum hesthúsum á Akureyri. Hrossin sýna hrossasóttareinkenni, þó misalvarleg, eru lystarlítil og með hita. Vegna mögulegrar hættu á að um smitsjúkdóm væri að ræða óskuðu héraðsdýralæknir og dýralæknir hrossasjúkdóma eftir að sýni yrðu tekin til bakteríuræktunar og fleiri rannsókna.


Undir lok mánaðarins voru tekin sýni úr 4 hrossum. Ekkert hefur enn greinst í þeim sýnum sem útskýrt getur veikindin.


Veikindi eins og að framan er lýst geta verið af ýmsum orsökum og eru í raun ekki óalgeng í hrossum á gjöf. Röskun á barkteríuflóru þarmanna v. fóðurbreytinga og/eða skemmda í fóðri eru líkleg orsök en fóðurbornar sýkingar s.s. listería (votheysveiki) og jafnvel salmonella geta einnig verið inni í myndinni. Frá því hitasóttin gekk yfir landið 1998 og varð að líkindum landlæg, má einnig reikna með að sú veirusýking geti stungið sér niður í hrossum sem ekki hafa myndað ónæmi gegn henni. Því miður er ekki mögulegt að staðfesta það eða afsanna hvort hitasótt hafi verið á ferðinni í þetta sinn en ekkert bendir til að hætta sé á að faraldur breiðst út á ný af hennar völdum.   


Í byrjun febrúar var á ný tilkynnt um nokkur veik hross í Hringsholti. Nú voru helstu einkennin frá miðtaugakerfi. Út frá einkennum og þróun þeirra þykir nú mjög líklegt að hér sé um að ræða svokallaða hræeitrun eða botulisma, þ.e. fóðureitrun af völdum bakteríunnar Clostridium botulinum.


Hræeitranir eru ekki óþekktar á Íslandi þó svo þær séu ekki mjög algengar. Þær eru mjög alvarlegar og valda yfirleitt mjög miklu tjóni þar sem þær koma upp, jafnvel heilu hrossastóðin farast. Ekki hefur áður orðið vart við hræeitrun í Eyjafirði svo vitað sé, en hún hefur í seinni tíð valdið tjóni á afmörkuðum stöðum í Skagafirði og Vestur-Skaftafellssýslu. Ekki hefur orðið vart hræeitrunar í öðrum húsum að Hringsholti. Erfitt er að verjast hræeitrun þar sem oft sést ekkert afbrigðilegt í fóðrinu sem gefið er.


Út frá framangreindu, og því að veikin hefur ekki breiðst út innan Hringsholts er ekki lengur talin hætta á að um smitsjúkdóm sé að ræða. Öllum varúðar-ráðstöfunum varðandi flutninga á hrossum til og frá Hringsholti og annarri starfsemi er þar með aflétt. Áfram verður þó gætt varúðar í húsinu sem geymir hrossin sem enn eru veik.


Frekari upplýsingar veitir Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma í síma 893 0824



Getum við bætt efni síðunnar?