Fara í efni

Umræða um skordýr og nýfæði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í tilefni af yfirlýsingum framleiðenda próteinstangarinnar Jungle Bar sem unnin er m.a. úr skordýrum telur Matvælastofnun rétt að vekja athygli á eftirfarandi staðreyndum.

Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 258/97 um nýfæði, sem innleidd var á Íslandi með reglugerð nr. 990/2015 um nýfæði, eru skordýr ekki leyfð á neytendamarkaði nema með leyfi frá Evrópusambandinu (ESB). Flest öll aðildarríki ESB og þar með ríki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) túlka reglurnar á þann hátt að öll skordýr, heil eða unnin, séu bönnuð á matvælamarkaði nema veitt hafi verið sérstakt leyfi til markaðssetningar þeirra. Í dag hafa engar umsóknir um leyfi til markaðssetningar á skordýrum verið lagðar fram á EES samkvæmt reglugerð nr. 258/97 um nýfæði. Því hafa engin skordýr né afurðir úr skordýrum verið leyfð á grundvelli reglugerðarinnar. 

Belgía, Holland og Bretland hafa þó vegna orðalags reglugerðarinnar túlkað hana þannig að hún gildi ekki um markaðssetningu á heilum skordýrum. Þess má geta að ný EB reglugerð um nýfæði nr. 2015/2283, sem nú hefur verið innleidd í ESB, tekur af allan vafa um að öll skordýr, heil eða unnin, falla  undir reglugerð um nýfæði. Þegar hún tekur gildi að fullu, sem verður í byrjun janúar 2018, þá munu öll skordýr sem eru á neytendamarkaði í ESB þurfa leyfi samkvæmt reglugerð um nýfæði.

Skordýr sem er hitað og mulið í mjöl telst vera unnin matvara en ekki heilt skordýr. Matvæli sem innihalda mjöl úr skordýrum falla því undir reglugerð um nýfæði í aðildarríkjum ESB og til að markaðssetja þannig vöru þarf að hafa til þess tilskilin leyfi frá framkvæmdastjórn ESB.

Það er á ábyrgð hvers matvælaframleiðenda að tryggja að vörur sem hann framleiðir séu í samræmi við lög og reglur sem gilda í hverju landi. Framleiðendur Jungle Bar á Íslandi voru upplýstir um fyrirhugaða innleiðingu á nýfæðisreglum Evrópusambandsins og að markaðsetning vörunnar yrði ekki heimil samkvæmt þeim. 

Hlutverk Matvælastofnunar og annarra opinberra eftirlitsaðila er að framfylgja þeim reglum sem löggjafarvaldið innleiðir á starfssviði þeirra. Þannig byggir Matvælastofnun eftirlit sitt og aðra starfsemi á þeim lögum og reglum sem gilda um matvæli og um leið á ítarlegri skoðun mála af hennar hálfu, ekki síst þegar álitamál koma upp. Niðurstaða stofnunarinnar í því máli sem hér er til umræðu er sú að markaðssetning umræddrar próteinstangar sé ekki heimil samkvæmt íslenskri löggjöf og að vandað hafi verið til vinnu þeirra sérfræðinga sem að málinu hafa komið.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?