Fara í efni

Tillaga að endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. til fiskeldis í Patreks- og Tálknafirði

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm í Patreks- og Tálknafirði en fyrirtækið hefur verið með rekstrarleyfi fyrir 7.800 tonna hámarkslífmassa af laxi í Patreks- og Tálknafirði (FE-1145) sem var gefið út 27. ágúst 2019 og rann út 27. ágúst 2023. Arctic Sea Farm sótti um endurnýjun á rekstrarleyfi dags. 27. desember 2022.

Í Strandssvæðisskipulagi Vestfjarða sem var staðfest í mars 2023 kemur fram að mikilvægt sé að í því ferli sem leiðir til útgáfu leyfa í sjókvíaeldi sé ávallt unnið áhættumat siglinga. Niðurstöður áhættumats þurfi að skila sér í leyfisskilmála og geta varðað s.s. endanlega staðsetningu sjókvía, fyrirkomulag festinga, merkingar sjókvía og skermingu vinnulýsingar. Þar sem um er að ræða nýjar kröfur sem gerðar voru til rekstrarleyfishafa og óljóst var hver og hvernig skyldi framkvæma áhættumat um siglingaöryggi tafðist sú vinna vegna eldissvæða Arctic Sea Farm í Patreks- og Tálknafirði.

Eftir ákvörðun stjórnvalda um að fyrirtækin skyldu sjálf framkvæma áhættumatið lagði Arctic Sea Farm fram drög að áhættumati um siglingaöryggi fyrir Kvígindisdal og Hvannadal í Patreks- og Tálknafirði, þann 29. október 2023. Í niðurstöðukafla draganna kemur eftirfarandi fram:

Niðurstaða áhættumatsins er að ekki sé ásættanlegt með tilliti til siglingaöryggis að leyfa fiskeldi á Kvígindisdalur eins og það er skilgreint. Ólafsvita er leiðarmerki í Patreksfirði og gefur sjófarendum sem koma til fjarðar sem og sigla út úr firðinum. Hins vegar eru flestir hlutar fiskeldissvæðisins ekki innan hvíts ljósgeira frá vitanum. Nýting þess hluta reitsins á Kvígindisdalur í Patreksfirði sem fellur utan hvíta ljósgeirans frá Ólafsvita ógnar ekki siglingaöryggi. Með því að nota mótvægisaðgerðirnar minnkar siglingaáhættan í Patreksfirði og Tálknafirði. Varúðarsvæði upp á 100m er talið hæfilegt.

Mikilvægt er að kvíasvæðin séu merkt eins og reglugerð um fiskeldi nr. 540/2020 kveður á um og að merkingar og ljós virki sem skyldi a.m.k. 99% tímans, mælt yfir þriggja ára tímabil. Ef þeim reglum er fylgt telst siglingaöryggi þeirra báta sem almennt sigla um þetta svæði ekki ógnað.

Matvælastofnun mun setja framangreind skilyrði í rekstrarleyfi ef endanlegt staðfest áhættumat gefur tilefni til. Verði frekari skilyrði sett varðandi siglingaöryggi á sjókvíaeldissvæðunum mun stofnunin taka tillit til þeirra og uppfæra rekstrarleyfið til samræmis við slík skilyrði.

Í ljósi ofangreinds og þess að beðið er eftir staðfestingu áhættumatsins hefur Matvælastofnun sett eftirfararandi skilyrði í rekstrarleyfið:

„Óheimilt er að hafa eldisbúnað á eldisvæðinu við Kvígindisdal í Patreksfirði og við Hvannadal í Tálknafirði fyrr en staðfest áhættumat um siglingaöryggi liggur fyrir. Þó er heimilt að hafa eldisbúnað við Hvannadal þar til búið er að ala og slátra þeim fiski sem er nú þegar í sjókvíum á eldisvæðinu. Leiði niðurstaða staðfests áhættumats um siglingaöryggi til þess að setja þurfi skilyrði eða breyta tilhögun eldisbúnaðar s.s. varðandi endanlega staðsetningu sjókvía, fyrirkomulag festinga, merkinga á eldisbúnaði o.s.frv. mun Matvælastofnun endurskoða rekstrarleyfið sbr. 10. gr. laga um fiskeldi með hliðsjón af niðurstöðu matsins.“

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm vegna fiskeldis í sjókvíum í Patreks- og Tálknafirði. Um er að ræða endurnýjun á rekstrarleyfi án breytinga þar sem hámarkslífmassi miðast við 7.800 tonn af laxi. Gildistími rekstrarleyfisins er til 16 ára.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar á Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 1. desember 2023.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?