Fara í efni

Svínainflúensa

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Inflúensan sem nú geisar meðal fólks í Mexíkó og hefur borist þaðan til annarra landa er ekki af völdum venjulegrar svínainflúensuveiru. Um er að ræða nýtt veiruafbrigði sem berst milli manna. Uppruni þessa nýja afbrigðis er óljós en í því er blanda af erfðaefni frá inflúensuveirum manna, svína og fugla. Ekki hefur orðið vart við aukna tíðni inflúensu í svínum í tengslum við hið nýja afbrigði inflúensuveirunnar.


Íslensk svín hafa aldrei greinst með inflúensu og grunur aldrei komið upp. Allt frá árinu 1994 hafa verið tekin sýni með nokkurra ára millibili úr svínum og leitað að mótefnum gegn veirunni, bæði mótefnisgerðum H1N1 og H3N2.

Lifandi svín hafa öðru hverju verið flutt hingað til lands og þá frá Noregi. Í sóttkví eru tekin sýni til rannsókna m.a. vegna inflúensuveira. Í Noregi er sömuleiðis eftirlit með svínainflúensu en þar hefur hún heldur aldrei greinst.

Inflúensuveirur smitast fyrst og fremst með úða- og snertismiti. Litlar líkur eru á smiti með matvælum.


Getum við bætt efni síðunnar?