Fara í efni

Stuðningur vegna kjaraskerðingar afgreiddur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í gær fengu sauðfjárbændur greiddar stuðningsgreiðslur frá stjórnvöldum fyrir dilkakjötsframleiðslu ársins 2017.

Um einskiptisaðgerð er að ræða til að bæta að hluta kjaraskerðingu sauðfjárbænda. Til þessa verkefnis var varið 400 milljónum króna samkvæmt fjáraukalögum 2017.

Rétthafar greiðslu voru þeir framleiðendur sem uppfylltu ákvæði 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt, áttu 151 vetrarfóðraða kind eða fleiri á haustskýrslu 2016 í Bústofni og voru innleggjendur dilkakjöts í afurðastöð á framleiðsluárinu 2017. Greiðslur miðast við innlagt dilkakjöt á framleiðsluárinu 2017 og deilist heildarstyrkupphæð á allt innlagt dilkakjöt þeirra innleggjenda sem eiga rétt á greiðslum samkvæmt ofangreindum skilyrðum.

Búnaðarstofa Matvælastofnunar annaðist greiðsluna. Greiddar voru 49,93 kr. á hvert kíló dilkakjöts skv. upplýsingum frá afurðastöðvum í AFURÐ, greiðslukerfi landbúnaðarins. Greiðslur skiptust á 1095 framleiðendur. 

Sauðfjárbændur sem nutu þessa stuðnings geta fundið upplýsingar á Bændatorginu undir rafræn skjöl undir greiðslur. 


Getum við bætt efni síðunnar?