Stjórnvaldsákvarðanir á sviði eftirlits með dýravelferð, matvælaframleiðslu og inn- og útflutningi gæludýra í nóvember og desember 2024
Ákvörðun tekin um að MAST komi vörslusviptu sauðfé í sláturhús í stað þess að bóndi geri það sjálfur
Bóndi á Vesturlandi var sviptur vörslum á sauðfé 1. nóvember vegna brota á dýravelferð að undanskildum 50 kindum. Hluti fjárins var enn á fjalli og hefur MAST haldið utan um smölun þess og komið því í sláturhús.
Bóndi sviptur mjólkursöluleyfi og vörslum nautgripa sinna
Bóndi á Vesturlandi var sviptur mjólkursöluleyfi vegna sóðaskapar í fjósi og einnig vörslum nautgripa sinna vegna skorts á getu. Frestur var veittur til 1. janúar 2025 til að ráðstafa gripunum.
Stjórnvaldssekt lögð á fiskeldisfyrirtæki vegna brota á dýravelferð
Fiskeldisfyrirtæki á Suðurlandi vanrækti að svipta eldisfisk meðvitund fyrir blóðgun eins og skylt er skv. lögum. Stjórnvaldssekt að upphæð 300.000 kr. var lögð á fyrirtækið.
Einstaklingur kærður til lögreglu vegna skjalafals við innflutning á ketti
Einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu var grunaður um að hafa lagt fram falsað heilbrigðis- og upprunavottorð frá erlendum yfirvöldum við tilraun til innflutnings á ketti. Umsókninni var synjað en málið kært til lögreglu.
Umráðamaður hunds sviptur umráðum
Í tengslum við aðgerðir lögreglu fjarlægði hún einnig hund af heimili viðkomandi í samráði við MAST. MAST tilkynnti síðan um varanlega vörslusviptingu enda gat umráðamaðurinn ekki lengur haldið hundinn sjálfur og heimilisaðstæður metnar með öllu óhæfar til að halda dýr.
Bóndi sviptur mjólkursöluleyfi
Bóndi á Vesturlandi var sviptur mjólkursöluleyfi vegna óþrifnaðar. Bóndinn var síðan upplýstur um að til fá leyfið að nýju þyrfti hann að sýna MAST fram á með endurteknum sýnatökum í tvær vikur að mjólkurgæðin væru viðunandi. Einnig þyrfti að sýna fram á að umhverfi mjaltaþjóns og allra rýma sem tengdust mjólkurframleiðslunni væru orðin hrein.
Bóndi sviptur vörslum nautgripa en vörslusvipting síðan felld niður
Bóndi á Norðurlandi eystra var sviptur vörslum nautgripa sinna vegna alvarlegra brota á dýravelferð. Fyrir ráðstöfun gripanna var svipting felld niður að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þ.m.t. með því að leggja fram skriflegan samning við utanaðkomandi bústjóra sem tók tímabundna ábyrgð á búrekstrinum. Fyrir liggur yfirlýsing um að búrekstrinum verði hætt eigi síðar en 1. mars 2025. Vörslusviptingin var því afturkölluð.
Óskað opinberrar rannsóknar á fölsuðum heilbrigðisvottorðum vegna útflutnings á köttum
Einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu flutti þrjá ketti frá Íslandi og lagði fram gögn til erlendra yfirvalda. Innflutningnum var hafnað í móttökuríkinu m.a. af því að örmerki vantaði og voru kettirnir fluttir aftur til Íslands og fóru þar í hefðbundna einangrun.
Við athugun kom í ljós að bæði nafn starfsmanns MAST og nafn sjálfstætt starfandi dýralæknis voru fölsuð í útflutningsskjölum. MAST kærði málið til lögreglu.
Stjórnvaldssekt lögð á sauðfjárbónda vegna brota á dýravelferð
Bóndi á Norðurlandi vestra var sektaður um 326.400 kr. vegna alvarlegra brota á dýravelferð í sauðfjárbúskap sínum á vormánuðum 2024.
Brot á lögum um innflutning dýra kært til lögreglu
Eigandi hunds sótti um leyfi til að flytja hann til Íslands. Leyfið var veitt en tekið fram að samkv. reglugerð væri einungis heimilt að flytja hundinn í farangursrými flugvélarinnar. Eigandinn braut hins vegar þessi fyrirmæli og flutti hann inn í farþegarými. Brotið var kært til lögreglu.