Smitsjúkdómurinn „refavanki“ greinist í kanínum
Matvælastofnun barst nýlega tilkynning frá Dýraspítalanum í Víðidal um að sníkjudýrið Encephalitozoon cuniculi hafi greinst í tveimur kanínum með mótefnamælingum í blóði. Er það fyrsta staðfesta smit af þessari tegund í kanínum hér á landi. Matvælastofnun vill vekja athygli dýraeigenda og dýralækna á þessu, svo aðilar verði vakandi fyrir sjúkdómseinkennum og leiti mögulega eftir greiningu á sjúkdómnum ef það á við. Þar sem þekkt er að þetta sníkjudýr finnst nú þegar víða um land í villtum dýrum, verður ekki gripið neinna aðgerða af hálfu yfirvalda til að reyna takmarka frekari dreifingu þess.
Hér á landi greindist E. cuniculi í refum á níunda áratug síðustu aldar, og einnig í minkum og músum. Hefur sjúkdómurinn sem einfrumungurinn veldur verið kallaður „refavanki“ á íslensku, en erlendis gengur hann undir nafninu nosematosis eða encephalitozoonosis. Engin skimun hefur farið fram í kanínum hér á landi, svo umfang smits af þessu tagi í þeim er óþekkt.
Samkvæmt reglugerð um tilkynningar- og skráningarskylda sjúkdóma er skylt að tilkynna grun eða staðfestingu á Encephalitozoon cuniculi til Matvælastofnunar.
Smitleiðir
E. cuniculi er einfrumungur, svokallað frumdýr (e. Protozoa). Einfrumungurinn finnst í frumum hýsils og dreifist með því að mynda gró sem geta borist út með þvagi eða saur. Geta gróin verið smithæf í umhverfi í langan tíma. Þegar gróin berast í nýjan hýsil t.d. með vatni eða fóðri, þá opnast gróin með smitefninu sem finnur sér leið inn í frumur hýsilsins og byrjar að fjölga sér upp á nýtt. Um 1-2 mánuðir líða oftast áður en nýr hýsill skilur út smithæf gró. Smit getur einnig borist frá móður til afkvæma á meðgöngu.
Einkenni
Flest spendýr sem smitast sýna engin einkenni, en lítill hluti dýra sem smitast þróa einkenni og þá helst frá taugakerfi, augum og/eða nýrum. Einkenni frá taugakerfi getur verið skekkja á höfuðstöðu, óstöðugleiki, hringganga og óeðlilegar augnhreyfingar. Augneinkenni geta verið að það sjáist hvítur massi í auga, aukinn þrýstingur og/eða sýking (uveitt). Einkenni eru oftast aðeins í öðru auganu og dýrið annars einkennalaust. E. cuniculi einfrumungurinn sækir einnig í nýru og getur valdið bráðri eða langvinnri nýrnabilun.
Greining
Sjúkdómseinkenni geta vakið grun um smitsjúkdóminn, en oftast þarf annað hvort krufningu og vefjaskoðun, greiningu á DNA sníkjudýrsins (PCR) í vef eða líkamsvessum eða mótefnamælingu í blóði til að staðfesta smit. Mótefni geta oftast mælst 3-4 vikum eftir smit og mælast yfirleitt 4 vikum áður en vefjabreytingar eru sýnilegar í nýrum (eða öðrum vef) og útskilnaður á gróum hefst.
Meðhöndlun og fyrirbyggjandi aðgerðir
Lítið hefur verið birt af vísindagreinum um árangursríka meðhöndlun á refavanka. Meðhöndlun gengur út á almenna stuðningsmeðhöndlun ef dýr sýna sjúkdómseinkenni og þá til að milda einkenni. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að meðhöndlun með sníkjudýralyfjum getur bæði fyrirbyggt og meðhöndlað sýkingu að einhverju leyti. Þó er alls óvíst að taugaeinkenni, eða önnur sjúkdómseinkenni gangi til baka, þrátt fyrir meðhöndlun þar sem sjúkdómseinkenni byggjast ekki bara á tilvist sníkjudýrsins, heldur líka á ónæmisviðbrögðum hýsilsins. Fyrirbyggjandi meðferð með sníkjudýralyfjum og hreinlæti við fóðrun getur hinsvegar minnkað líkur á smiti.