Slysaslepping regnbogasilungs á Húsavík
Slysaslepping á regnbogasilungi varð úr eldisstöð N-lax að Auðbrekku í Húsavík í síðasta mánuði. Rekstraraðili tilkynnti ekki um sleppingu eins og skylt er skv. lögum um fiskeldi.
Við slátrun úr einu keri fyrirtækisins losnaði rist af niðurfallsröri í kerinu og fiskar komust í frárennsli stöðvarinnar sem rennur í fráveitukerfi Húsavíkur. Fyrir liggur að eldisfiskar bárust í fráveitu bæjarins.
Umfang slysasleppingar er óljóst en það er ekki talið verulegt. Samkvæmt upplýsingum frá N-lax má ætla að um 300 regnbogasilungar hafi verið í kerinu þegar atvikið átti sér stað og uppgefnar sláturtölur gefa til kynna að hátt hlutfall þeirra hafi skilað sér í slátrun.
Engin hreinsun er í fráveitukerfinu og því ekki hægt að útiloka að lifandi fiskur hafi borist til sjávar. Eldisfiskurinn er ófrjór og getur ekki fjölgað sér í íslenskri náttúru.
Kveikjan að rannsókn málsins var ábending til Matvælastofnunar í lok síðustu viku um slysasleppingu hjá N-lax. Við eftirlit Matvælastofnunar 4. september sl. var farið yfir atburðarás atviksins, búnað og viðbrögð fyrirtækisins. Viðbrögð fyrirtækisins voru ekki skv. skráðu verklagi þess. Jafnframt var Fiskistofu ekki tilkynnt um sleppinguna eins og lög kveða á um. Matvælastofnun tilkynnti Fiskistofu um málið og er það til áframhaldandi skoðunar.