Fara í efni

Síle opnar fyrir innflutningi á laxahrognum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Yfirvöld í Síle hafa opnað landamæri sín að nýju fyrir innflutningi á laxahrognum frá Íslandi. Þarlend yfirvöld lögðu á innflutningsbann eftir að VHS-veiran greindist í fyrsta sinn hér á landi sl. haust.

VHS-veira greindist í fyrsta sinn á Íslandi á liðnu hausti. Veiran, sem valdið getur sjúkdómnum veirublæði í yfir 80 tegundum fiska, greindist í íslenskum hrognkelsum af villtum uppruna sem notuð eru til undaneldis og framleiðslu á „hreinsiseiðum“ til að éta lús af laxi í sjókvíum í Færeyjum og Skotlandi. 

Í kjölfar greiningarinnar lokuðu yfirvöld í Síle (Sernapesca) samstundis á allan innflutning á lifandi laxahrognum frá Íslandi, en slíkur innflutningur hefur átt sér stað frá 1996. Næstu vikur á eftir framkvæmdi Sernapesca í samstarfi við Matvælastofnun umfangsmikið áhættumat á smitdreifingu með áherslu á stöðu sjúkdómavarna hjá kynbótastöðvum Stofnfisks sem eitt fyrirtækja á heimsvísu hefur haft tilskilin leyfi til að flytja laxahrogn inn til Síle. Auk VHS-veirunnar tók endurmatið einnig til allra hugsanlegra veirusjúkdóma í fiskeldi sem leiddi til umfangsmikillar rannsóknarvinnu á mögulegri smithættu. 

Ítarleg skýrsla um málið var gerð opinber í Síle og send til umsagnar. Þann 4. mars sl. kom formleg tilkynning frá Sernapesca um að íslenskar kynbótastöðvar stæðust öll skilyrði og hafið væri yfir allan vafa að útflutningur á laxahrognum frá Íslandi til klaks og áframeldis bæri með sér hverfandi líkur á smitdreifingu. Útflutningur hrogna hefst á nýjan leik þann 12. mars nk.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?