Síld óhæf til manneldis en ekki skaðleg
![]() |
Í ljósi nýlegra frétta um greiningu sníkjudýrsins Ichthyophonus hoferi í síld hér við land þá vill Matvælastofnun koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri: Ichthyophonus hoferi er sníkill sem herjar á ýmsar tegundir sjávarfiska en er ekki skaðlegur mönnum eða öðrum spendýrum. Samkvæmt lögum nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og reglugerð nr. 233/1999 um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða er óheimilt að setja á markað til manneldis fisk eða fiskhluta sem er augljóslega sýktur af sníkjudýrum. |
Heimilt er að nýta síldina til framleiðslu fiskimjöls.
Ichthyophonus
hoferi berst í fisk í gegnum meltingarveg og dreifist með blóðrásinni
um fiskinn. Það sest að í ýmsum líffærum, einkum líffærum þar sem
blóðrennsli er mikið s.s. hjarta, nýrum, lifur og milta en einnig í
öðrum líffærum og í holdi. Sníkjudýrið myndar blöðrur sem stækka nokkuð
hratt í upphafi og innan þeirra verður ör kjarnaskipting sem að lokum
leiðir til myndunar nýrra hvíldargróa sem bíða þess að sýkja nýjan
hýsil. Þroskunarferillinn er síendurtekinn og hleðst upp mikill
fjöldi hvíldargróa sem að lokum fara að há fiskinum stórlega. Blæðingar
verða í holdi og skemmdir verða á líffærum. Dánartíðni er misjöfn eftir
fisktegundum en virðist vera mjög há í síld.
Sníkjudýrið getur sýkt
margar tegundir sjávarfiska víðs vegar um heim og er algengt í ýmsum
tegundum villtra kaldsjávarfiska. Tegundir fiska eru misnæmar, en síld er mjög næm tegund. Faraldrar af völdum þessa
sníkjudýrs hafa af og til komið upp í Norðurhöfum. Síðustu ca. 150
árin hafa komið upp a.m.k. 7 - 8 stórir faraldrar í Norð-Vestur Atlantshafssíldarstofninum. Árin 1990 til 1991 kom upp faraldur í
vorgotssíldinni við Noregsstrendur. Sjá einnig: |
![]() Myndir: Sindri Sigurðsson |
Ítarefni um Ichthyophonus hoferi