Fara í efni

Salmonella og sala á kjúklingum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fullyrðing á frosnum dönskum kjúklingum, sem seldir eru í Bónus, þess efnis að þeir séu lausir við salmonellu er ekki leyfileg að mati Matvælastofnunar.    
Dönsku kjúklingarnir hafa staðist salmonellu-rannsókn sem krafist er við innflutning til Íslands, en hún er byggð á  reglugerð Evrópusambandsins (ESB) um viðbótartryggingar vegna salmonellu. Þetta gefur þó ekki leyfi til fullyrðingar um að þeir séu án salmonellu, því ómögulegt er að útiloka með fullri vissu að salmonella geti leynst í hráu kjöti og geta slíkar fullyrðingar veitt neytendum falskt öryggi.

Allt eftirlit með framleiðslu kjúklinga hér á landi tekur mið af því að ekki berist á markað kjúklingar sem eru mengaðir með salmonellu. Stöðugt er í gangi sýnatöku- og viðbragðsáætlun sem tekur mið af þessu og ef salmonella greinist í eldi er þegar gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að varan berist ekki á markað. Fullyrðing á umbúðum innfluttra kjúklinga um að þeir séu lausir við salmonellu getur gefið í skyn að þeir séu öruggari til neyslu en íslenskir kjúklingar. Þetta er villandi og því ekki leyfilegt.

 
Sækja þarf um sérstakt leyfi til að flytja frosið kjöt til landsins. Ef slíkt leyfi er veitt er það á ábyrgð innflytjanda að reglur um umbúðamerkingar og aðra þætti íslenskrar matvælalöggjafar séu uppfylltar. Að gefnu þessu tilefni mun MAST leggja til að framvegis verði krafist sýnishorna af merkingum á umbúðum vörunnar og að lagt verði mat á hvort þær uppfylli íslenskar reglur áður en til innflutnings kemur. Ef svo reynist ekki verði leyfisveiting háð kröfu um endurmerkingu áður en vörunni er dreift á markað hér á landi.Getum við bætt efni síðunnar?