Fara í efni

Særindi í munni hesta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Málþing um áverka á sýningar- og keppnishrossum var haldið á Hvanneyri 13. Mars 2009 undir yfirskriftinni „Út með ágrip“. Dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun var meðal frummælenda og gerði grein fyrir áverkaskoðun á keppnishestum á LM 2008.


  Um fjórðungur hestanna reyndist hafa særindi í munni áður en keppnin hófst og var í öllum tilfellum um þrýstingssár að ræða. Einum hesti var meinað að halda áfram keppni af þessum sökum en að öðru leyti varð ekki vart við að særindin ágerðust á mótinu. Um 13% hestanna voru með minniháttar áverka á fótum áður en keppnin hófst og einum hesti var vísað frá keppni vegna helti. Einn hestur til viðbótar fékk ekki að halda áfram keppni vegna ágrips á fæti.  Almennt séð var ástand fóta nokkuð gott og lítið um ágrip.

Ágrip virðast mun algengari hjá kynbótahrossum en meðal þeirra eru ekki fyrirliggjandi nægar upplýsingar um særindi í munni.

Særindi í munni er afleiðing langvarandi þrýstings á afmörkuð svæði, oftast innan á munnvikum og kinnum hestanna. Slímhúðin á þessu svæði lendir í klemmu milli méla og múla annars vegar og jaxlanna hins vegar. Við langvarandi þrýsting dregur verulega úr blóðflæði til slímhúðarinnar sem þar með missir styrk sinn. Þetta gerist fyrst og fremt vegna þess að taumhald knapanna er allt of stíft auk þess sem beislisbúnaðurinn er í mörgum tilfellum óheppilegur. Þau mél sem eru í notkun hér á landi eru oft á tíðum of löng fyrir munn íslenska hestsins sem leiðir til þess að endar þeirra dragast upp á móts við jaxlana þegar togað er í taum í stað þess að átakið eigi sér stað á tannlausa bilinu.  Tekið skal fram að röspun tanna, sem lengi hefur tíðkast til varnar særindum í munni, er að öllu jöfnu ónauðsynleg og getur valdið miklum skaða á tönnunum.

Áhersla verður lögð á kynningar- og  fræðsluefni til að fyrirbyggja særindi í munni reiðhesta.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?