Fara í efni

Reglubundið eftirlit með fiskiskipum undir 15 brt tekið upp

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fiskiskip undir 15 brt að stærð voru með reglugerð nr. 537 frá 2. júní 2005 tekin undan þeirri skyldu að hafa samning við faggilta skoðunarstofu um eftirlit með hreinlæti, búnaði og aflameðferð. Þess í stað skyldu eftirlitsmenn Fiskistofu og síðar Matvælastofnunar (MAST) hafa óreglubundið eftirlit með þessum þáttum hjá skipunum.  
Ný matvælalöggjöf um hollustuhætti og eftirlit sem gekk í gildi í Evrópu árið 2006, var með samþykkt laga nr. 143/2009 innleidd hérlendis með gildistöku 1. mars 2010 fyrir sjávarafurðir. Ákvæði var sett í lögin (79. gr.) um að undanþágan um að fiskiskip undir 15 brt væru undanskilin samningi við skoðunarstofur skyldi falla úr gildi 1. mars 2011 en frá þeim tíma hefur allt eftirlit með hreinlæti, búnaði og aflameðferð verið á höndum Matvælastofnunar.  Í sumar hafa 4 starfsmenn MAST fylgst með aflameðferð og kælingu landaðs afla. Eftirlitsmenn stofnunarinnar munu jafnframt skoða öll virk veiðiskip skv. tíðni sem MAST hefur ákveðið út frá áhættumati sem fyrirskipað er í 22. gr.laga nr. 93/1995 um matvæli. Fiskiskipum hefur verið skipt upp í stærðarflokka og verður tíðni skoðana í hverjum flokki ákveðin út frá meðaltali landaðs afla skipa í hverjum stærðarflokki.  Þannig er gert ráð fyrir að skip í þessum stærðarflokki verði skoðuð 3ja hvert ár. Er þá jafnframt gert ráð fyrir samstarfi MAST við veiðieftirlit Fiskistofu um upplýsingagjöf þeirra um vanhöld, er varða hreinlæti, ástand búnaðar og aflameðferð skipa, sem leitt getur til afskipta MAST af skipum í formi viðbótareftirlits.

Skoðunarskýrslur verða sendar til útgerðarfélags viðkomandi skips, sem jafnframt fær sendan reikning fyrir eftirlitinu, sem er nú  gjaldskylt  skv.  31. og 31. gr. a. í lögum nr. 55/1998 um sjávarafurðir.Getum við bætt efni síðunnar?