Þráðormur greinist að nýju
Nýtt tilfelli af þráðorminum Strongyloides stercoralis hefur greinst í saursýni úr hundi staðsettum á Suðvesturhorni landsins. Greiningin var gerð á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum í síðustu viku. Þessi tegund þráðorma hefur greinst í nokkrum tilfellum í hundum hér á landi utan einangrunarstöðva, en fyrsta slíka tilfellið greindist í febrúar 2012.
Matvælastofnun er nú að skoða mögulegan uppruna smitsins og hvort fleiri hundar gætu hýst þennan þráðorm. Ákvarðanir um aðgerðir munu verða teknar í framhaldi af niðurstöðum þeirra rannsókna.
Stofnunin hefur þegar sent út tilmæli til starfandi dýralækna um að vera á verði gagnvart sýkingu af Strongyloides stercoralis í hundum. Einkenni geta verið niðurgangur, þyngdartap eða hægur vaxtarhraði, en hundarnir geta einnig verið einkennalausir.
Ávallt skal gæta hreinlætis við umgengni og umönnun dýra því ýmsir sýklar geta borist úr dýrasaur í menn. Tíður handþvottur er mikilvægasta smitvörnin, einkum fyrir máltíðir og matarundirbúning. Forðast skal að láta hunda sleikja andlit fólks. Saur hunda skal hreinsa upp, setja í plastpoka og síðan í sorptunnu.
Ítarefni
- Þráðormur í hundum - Frétt Matvælastofnunar frá 01.03.12
- Strongyloides sp.
- Strongyloides stercoralis infection in a Finnish kennel
- Transmammary transmission of Strongyloides stercoralis in dogs
- Parasitological and serological diagnosis of Strongyloides stercoralis in domesticated dogs from southeastern Brazil
- Strongyloidiasis