Rannsókn á salmonellustofnum
|
Matvælastofnun hefur látið greina erfðafræðilegan skyldleika 25 salmonellustofna hjá Sýkladeild Landspítalans. Stofnarnir voru greindir með svokallaðri Pulse Field Gel Electrophoresis (PFGE) aðferð. Niðurstöður rannsóknarinnar og túlkun á þeim eru birtar í skýrslunni Stofnagreiningar á 25 Salmonella stofnum. Upphaf rannsóknarinnar má rekja til þess að salmonella fannst í svínakjöti á markaði í júni árið 2009 og að tíðni salmonellu hefur farið hækkandi undanfarin tvö ár, aðallega í svína- og alifuglarækt. |
Rannsakaðir voru níu Salmonella Typhimurium stofnar, tíu Salmonella Worthington stofnar, fjórir Salmonella Agona stofnar og tveir Salmonella Kentucky stofnar. Tilgangur rannsóknarinnar var eins og segir í skýrslunni að greina og bera saman erfðafræðilegt mynstur þeirra, skoða faraldsfræðileg tengsl sermisgerðanna og meta hvort uppruni þeirra gæti verið sá sami. Niðurstöðurnar má nýta til þess að draga úr salmonellu smiti og geta fóðurframleiðendur, svína- og alifuglabændur sem og aðrir bændur eflt smitvarnir og varnaraðgerðir gegn salmonellu því sumar niðurstöðurnar benda til þess að Salmonella geti líklega borist með fóðri og smitast innan búa.
Stofnarnir sem voru rannsakaðir greindust við eftirliti Matvælastofnunar með salmonellu í svína- og alifuglarækt, við sýnatökur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og við innra eftirlit fóðurfyrirtækja. Sýnin sem stofnarnir ræktuðust úr voru rannsökuð á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum, hjá Rannsóknarþjónustunni Sýni og Matís. Staðfesting og greining sermisgerða fór fram hjá Sýkladeild Landspítalans og í Danmörku.
Skýrsluna má lesa hér.
Frekari upplýsingar veita:
Konráð Konráðsson - konkon hjá mast.is
Sigurborg Daðadóttir - sigurborg.dadadottir hjá mast.is