Fara í efni

Ráðherraráðið sammælist um merkingarreglur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Náðst hefur pólítískt samkomulag milli aðildarríkja ESB um merkingar matvæla. Endurskoðun reglna um merkingar matvæla hófst í ársbyrjun 2008 þegar Framkvæmdastjórnin sendi Evrópuþinginu og Ráðherraráðinu tillögu að nýjum reglum. Evrópuþingið kom með breytingartillögur í júní á þessu ári og nú hefur Ráðið tekið afstöðu til málsins. 

 



  Umræða um drögin hefur helst snúist um lágmarksleturstærð á umbúðum, nauðsynlegar merkingar á næringarinnihaldi og auknar kröfur um upprunamerkingar. Lágmarksleturstærð verður skilgreind til að tryggja að merkingar verði læsilegar. Orkugildi og magn fitu, mettaðrar fitu, kolvetna, próteins, sykurs og salts skal skilgreint per 100g eða 100ml. Upprunamerking skal ná til kjöts úr svínum, alifuglum og geit– og sauðfé en slík krafa er þegar gerð um nautakjöt skv. öðrum reglum ESB.

Sameiginleg afstaða Ráðsins (common position) verður innan skamms send að nýju til Evrópuþingsins til umsagnar. Líklegt er að Evrópuþingið muni gera athugasemdir við tillögur Ráðsins en samkomulag þarf að nást milli þessara tveggja stofnana áður en ný löggjöf lítur dagsins ljós. Óljóst er hvenær af því getur orðið en vonast er til að svo verði fyrri hluta ársins 2012.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?