Fara í efni

Orf í hreindýrum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Smitsjúkdómurinn orf hefur greinst í nokkrum hreindýrum á yfirstandandi veiðitímabili. Sjúkdómurinn er vel þekktur í sauðfé. Oftast verða dýrin ekki mikið veik en smitið getur valdið skemmdum á júgri og þar með vanþrifum í kálfum. Fólk getur smitast af snertingu við hrúðrið sem sýkingin veldur.

Náttúrustofa Austurlands hafði samband við Matvælastofnun vegna gruns um orf í hreindýrum en það var leiðsögumaður með hreindýraveiðum hjá Umhverfisstofnun sem hafði fyrst samband við Náttúrustofuna. Sýni voru tekin og send á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum þar sem greining fór fram. Meinafræðiniðurstöður leiddu í ljós að breytingarnar samrýmdust þeim sem verða við orf-veirusýkingu. Við veirurannsókn, sem var einnig framkvæmd á Keldum, kom í ljós að um parapox-veiru var að ræða sem staðfestir greininguna.

Orf, sem einnig er nefnt smitandi munnangur, kindabóla eða sláturbóla er veirusýking sem er landlæg í sauðfé um allt Austurland og hefur verið í áratugi. Hún finnst einnig víðar á landinu. Veiran virkar þannig að eftir smit myndast lífslangt ónæmi, því er mikilvægt að ungviði smitist snemma þar sem veiran er landlæg. Þegar veiran berst í eldri dýr sem ekki eru með ónæmi þá fer þetta á aðra staði en munnvik, t.d. við hornarót, klaufir eða það sem verst er á júgur og spena. 

Mjög líklegt er að orf- geti smitast frá sauðfé yfir í hreindýr en sýkingin hefur greinst í mörgum dýrategundum. Líklega veldur þetta ekki miklum vandræðum nema það berist á júgur hreinkúa meðan þær mjólka mest. Þá verða helstu áhrifin á hjörðina sú að kálfar gætu verið í minna lagi en það fer eftir aldri kálfanna þegar kýrin smitast. Sýkingin gengur þó yfir á nokkrum vikum. Smit verður með snertingu og öðru sem hefur komist í snertingu við sýkta vessa.  

Borist hafa tilkynningar frá Austurlandi um alvarlegri tilfelli þar sem breytingarnar ná dýpra í undirliggjandi vef. Líklegt er að það séu afleiðingar bakteríusýkinga sem koma í kjölfar húðbreytinga sem stafa af veirusýkingunni. Afleiðingar slíkra sýkinga eru líklegar til að hafa langvarandi áhrif á mjólkureiginleika hreindýrakúnna en það fer eftir því hversu djúpt í vefinn sýkingin nær.

Smitandi munnangur getur borist í fólk og veldur þá stundum vondum sýkingum, einkum á fingrum. Það er því full ástæða til þess að vara veiðimenn við og minna á að snerta aldrei hrúður með berum höndum.


Getum við bætt efni síðunnar?