Fara í efni

Nýtt vísindaálit EFSA um litarefni í matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ákveðið hefur verið að sérfræðihópur Matvælaöryggis-stofnunar Evrópu (EFSA) um aukefni (ANS Panel) skoði öryggi allra aukefna sem leyfð eru til notkunar í matvæli í Evrópusambandinu (ESB) og byrji á litarefnum. Framkvæmdastjórn ESB bað EFSA að setja sex gervilitarefni í forgang, sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum vegna niðurstaðna breskrar rannsóknar, sem birtar voru 2007. EFSA hefur farið yfir öll fyrirliggjandi rannsóknagögn um litarefnin og hefur í kjölfarið lækkað daglegt neyslugildi (ADI*) fyrir litarefnin E 104 (Kínólíngult), E 110 (Sunset yellow FCF) og E 124 (Ponceau 4R). Sérfræðihópurinn komst að þeirri niðurstöðu að hætta sé á að inntaka þessara litarefna geti farið yfir nýja daglega neyslugildið bæði fyrir fullorðna og börn.

Fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á þörf á að breyta núgildandi daglegum neyslugildum fyrir önnur þrjú gervilitarefni sem skoðuð voru, E 102 (Tartrasín), E 122 (Asórúbín/Karmósín) og E 129 (Allúra rautt AC). Samkvæmt vísindaáliti hópsins eru það aðeins þau börn sem neyta mikils magns matar og drykkjar sem innihalda E 122 eða E 129 (asórúbín eða allúra rautt) sem gætu farið yfir dagleg neyslugildi fyrir þessi litarefni.

Litarefnin sex sem sérfræðihópurinn hefur nú  endurskoðað má nota í mörg matvæli, m.a. drykki, kaffibrauð, eftirrétti og sælgæti. Nefndin ályktaði að eitt efnanna, tartrasín (E 102), geti valdið óþolseinkennum, svo sem ertingu í húð, hjá litlum hópi fólks. Enga ályktun var hægt að draga um hugsanlegt óþol vegna neyslu hinna fimm litarefnanna á grundvelli þeirra takmörkuðu gagna sem fyrirliggjandi eru.

Ástæðan fyrir því að þessi sex  gervilitarefni voru sett í forgang var niðurstaða rannsóknar (svokallaðrar Southampton rannsóknar) sem tengdi ákveðnar blöndur þessara litarefna og rotvarnarefnisins natríumbensóat við ofvirkni í börnum. EFSA gat hins vegar ekki fundið tengsl á milli einstakra litarefna og hugsanlegra áhrifa á hegðun. Í nýrri reglugerð EB um aukefni í matvælum (nr. 1333/2008/EB) er krafa um að þau matvæli sem innihalda eitthvert þessara litarefna verði merkt með setningunni; ”[heiti eða E númer litarefnis/efna] getur haft neikvæð áhrif á virkni og athygli í börnum”. Þessi reglugerð verður innleidd í íslenska löggjöf á næsta ári.

Nú hefur daglegt neyslugildi (ADI) verið lækkað fyrir þrjú af þessum sex litarefnum, en af ólíkum ástæðum fyrir hvert, á grundvelli fyrirliggjandi gagna fyrir hvert efni. Í framhaldinu mun framkvæmdastjórn ESB skoða hvaða breytinga er þörf á reglum um notkun litarefnanna til að tryggja að inntaka þeirra fari ekki yfir hin nýju daglegu neyslugildi. Það er hægt að gera með tvennum hætti. Annað hvort að lækka magn efnanna sem nota má þar sem þau eru leyfð í matvælum eða fækka þeim vörum sem efnin eru leyfð í.

Íslensk reglugerð nr. 285/2002 um aukefni byggir á reglum frá ESB og leyfð notkun litarefna hér á landi er í samræmi við leyfða notkun í ESB. Matvælastofnun mun fylgjast náið með næstu skrefum hjá framkvæmdastjórn ESB og gera breytingar á íslenskum reglum eins og þörf er á.

* ADI - Acceptable daily intake,  er það gildi daglegrar neyslu aukefnis  ótímabundið  í þeim mæli að ekki valdi heilsutjóni. Þetta er meðalgildi, þannig að neysla má vera umfram gildið á ákveðnum tímum svo framarlega sem meðalneysla er minni. Gildið er gefið upp sem mg/kg líkamsþyngdar/dag og hafa ADI-gildi eða önnur sambærileg markgildi verið ákvörðuð fyrir flest aukefni og aðskotaefni í matvælum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?