Fara í efni

Nýtt sníkjudýr greinist í innfluttum hundi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nýverið greindist sníkjudýrið Leishmania í fyrsta skipti í hundi hér á landi. Hundurinn var fluttur til landsins árið 2018. Helsta smitleið leishmaníu er með sandflugum en smitið getur einnig borist milli hunda við pörun, frá tíkum til hvolpa og við bit. Smitið berst ekki með snertingu. Matvælastofnun hefur gefið fyrirmæli um pörunarbann og nánari rannsóknir.

Leishmania hefur ekki greinst áður í hundi né öðrum dýrum hér á landi en hefur greinst í fólki sem smitast hefur erlendis. Sníkjudýrið er frumdýr sem berst oftast milli einstaklinga, bæði dýra og manna, með sérstökum tegundum af sandflugum sem lifa ekki hér á landi. Smit getur einnig borist milli hunda við pörun, frá tíkum til hvolpa og dæmi eru um að smit geti borist við bit. Smitið berst ekki milli hunda eða í önnur dýr og fólk við snertingu. 

Einkenni sjúkdómsins í hundum eru breytileg, allt frá staðbundnum sýkingum í húð yfir í sýkingar í flestum innri líffærum, sem geta valdið dauða. Meðhöndlun er erfið og ólíklegt að með henni náist að ráða niðurlögum sýkingarinnar að fullu en meðhöndlunin getur hægt á sjúkdóminum og haldið niðri einkennum.

Matvælastofnun barst tilkynning frá dýralækni um að leishmanssýki hafi greinst í hundi sem fluttur var til landsins frá Spáni árið 2018. Hundurinn hefur verið notaður á nokkrar tíkur við ræktun og undan honum er komið eitt got. 

Til að hindra smitdreifingu hefur Matvælastofnun gefið fyrirmæli um að hundurinn verði ekki paraður við fleiri tíkur. Jafnframt eru nánari rannsóknir í undirbúningi, m.a. til að kanna hvort tíkurnar hafi smitast. Í samræmi við lög um dýrasjúkdóma hefur Matvælastofnun tilkynnt ráðherra um málið og lagt til að hann gefi út fyrirskipun um aðgerðir, sem miða að því að hindra útbreiðslu og að endingu uppræta sníkjudýrið á Íslandi.


Getum við bætt efni síðunnar?