Fara í efni

Nýjar reglur um velferð svína

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð um velferð svína sem er byggð á nýjum lögum um velferð dýra auk laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Eldri reglugerð um aðbúnað og heilbrigði svína fellur þar með úr gildi. 

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði svína með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Í anda hinna nýju laga um velferð dýra er sérstaklega tekið fram að leitast skuli við að svín geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Reglugerðin tilgreinir lágmarkskröfur um einstök atriði.

Meðal nýmæla má nefna að gerð er krafa til allra sem halda svín að þeir afli sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun svína, að auki þarf umráðamaður tiltekins svínahalds skv. viðauka að hafa sérstaka þekkingu, í formi náms eða reynslu af svínabúskap. Ný ákvæði um aflífun, handsömun og rekstur er að finna í nýrri reglugerð, t.d. verður ekki lengur heimilt að reka svín með því að nota tæki sem gefa frá sér rafstuð. Ný reglugerð gerir ráð fyrir að svín geti einnig verið haldin úti sem er nýmæli frá fyrri reglugerð, en hún tók eingöngu til svínahalds innandyra.

Margar breytingar hafa verið gerðar varðandi kröfur um lágmarksrými svo sem um stærð stía og bása. Þar má nefna að lágmarksstærð á stíu fyrir einn gölt er nú 6 m2 í stað 5 m2 áður og lágmarksstærð gotstíu er nú 6 m2 í stað 4,5 m2 áður. Hins vegar er leyfður aukinn þéttleiki hjá eldisgrísum sem vega 21 til 110 kg og það sama á við um gyltur sem haldnar eru í litlum hópum í lausagöngu (10 gyltur eða færri). Lágmarksbreidd skammtímabása hefur breyst á þann veg að halda má unggyltur á 60 sm breiðum básum í stað 65 sm áður, en breidd skammtímabása fyrir fanggyltur verður áfram 65 sm. Dagafjöldi sem heimilt er að halda gyltur í gotbásum hefur verið lengdur úr 7 dögum eftir got í 28 daga eftir got.

Reglugerðin gefur svínabændum svigrúm í 10 ár til að breyta úr básahaldi (sem viðvarandi vistarverum) yfir í lausagöngu, en þó með þeim fyrirvara að básarnir þrengi ekki um of að gyltunum.

Með reglugerðinni eru þrír viðaukar. Fyrsti viðauki tilgreinir hvaða svínahald er tilkynninga- og úttektarskylt. Annar viðauki fjallar m.a. um lágmarksstærðir innréttinga (stíur, básar o.fl.). Þriðji viðauki tilgreinir hvernig eigi að meta holdafar og bógsár og hjálpar þannig við að meta ástand svína. Einnig er að finna í þriðja viðauka nánari leiðbeiningar um aflífun svína heima á bæ. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?