Fara í efni

Nýjar reglur um velferð alifugla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um velferð alifugla. Reglugerðin stuðlar að bættum aðbúnaði og umhirðu alifugla í samræmi við ný lög um velferð dýra. Boðaðar eru töluverðar breytingar á varphænuhaldi, notkun hefðbundinna búra fyrir varphænur verður bönnuð að sjö árum liðnum, ný ákvæði eru um varphænur í lausagönguhúsum og strangari kröfur eru gerðar frá því sem nú er varðandi velferð kjúklinga.

Ný reglugerð nr. 135/2015 um velferð alifugla hefur þegar tekið gildi og leysir af hólmi 20 ára gamla reglugerð nr. 251/1995 um aðbúnað og sjúkdómavarnir á alifuglabúum og útungunarstöðvum. Undanfarna áratugi hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir erlendis á velferð varphæna og kjúklinga sem leitt hafa af sér strangari kröfur til alifuglaeldis í nágrannalöndum okkar, en Ísland dregist aftur úr að sama skapi. Á þetta sérstaklega við um búrahald varphæna en þegar fyrri reglugerð var sett árið 1995 voru varphænur hérlendis nær eingöngu haldnar í hefðbundnum óinnréttuðum búrum. Með gildistöku nýju reglugerðarinnar verður óheimilt að nota þessi búr eftir 31. desember 2021, en í öðrum löndum í Evrópu hefur notkun þessara búra verið bönnuð frá ársbyrjun 2012. Erlendis hafa verið þróuð innréttuð búr sem eru stærri en hefðbundin búr og í þeim eru setprik, varpkassar, aðstaða til sandböðunar og búnaður fyrir fuglana til að slípa klær sínar, allt til þess fallið að auka möguleika varphæna á að sýna sitt eðlilega atferli. Reglugerðin gerir lágmarkskröfur til þessara búra, en þær eru í samræmi við kröfur innan ESB og annarra aðildarlanda EFTA. Önnur nýmæli varðandi velferð varphæna eru að nú eru gerðar lágmarkskröfur um varphænur þar sem þær eru haldnar í lausagönguhúsum, en engin ákvæði voru um slíkt dýrahald í eldri reglugerð.

Að fyrirmynd annarra Norðurlanda er skilgreint í nýju reglugerðinni hvernig bregðast skuli við dritbruna á fótum alifugla. Dritbruni er það kallað þegar sár myndast á gangþófum kjúklinga í eldi og orsakast oftast af of rökum undirburði. Best er að skoða útbreiðslu dritbruna við slátrun fuglanna og skilgreinir reglugerðin hvernig eigi að meta þessa áverka og hver viðbrögðin eigi að vera, allt eftir alvarleika og tíðni áverkanna.  Framleiðanda ber að bregðast strax við með bættri umhirðu, en við endurtekinn dritbruna ber honum að minnka fjölda fugla sem settir eru í kjúklingahúsið. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel í nágrannalöndum okkar, það er auðvelt í framkvæmd, eftirfylgni verður skýr og þannig verður hægt að koma í veg fyrir síendurtekinn dritbruna. Reglugerðin setur einnig nýjar kröfur um hámarksþéttleika í kjúklingaeldi. Áður var heimilt að halda allt að 19 kjúklinga á hverjum fermetra gólfflatar sem samsvarar til um 39-40kg líkamsþunga/m2. Leyfilegur þéttleiki í nýju reglugerðinni er 33kg/m2 gólfflatar. Matvælastofnun verður þó  heimilt að leyfa aukinn þéttleika, allt að 39kg/m2 að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem eru auk dritbruna, ákveðin loftræsting, stjórnun á hitastigi í eldishúsinu og tiltekin hámarks afföll í eldi. Þannig getur Matvælastofnun  aðeins leyft fyrirmyndar framleiðendum leyfi til að hafa sama þéttleika og tíðkast hefur hjá öllum undanfarin ár.

Samkvæmt reglugerðinni verður óheimilt að goggstýfa alifugla. Þó er heimilt að framkvæma þessa aðgerð í undantekningartilfellum á kalkúnahænum og varphænum að því gefnu að dýralæknir mæli með því og að það stuðli að bættri velferð fuglanna. Þetta eru strangari skilyrði en þekkist í þeim löndum þar sem goggstýfing er heimil.

Áfram eru gerðar strangar kröfur um smitvarnir á alifuglabúum, til að koma í veg fyrir að sjúkdómar berist inn í búin og á milli búa.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?