Nýjar næringarráðleggingar
Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR 5) voru kynntar formlega í október 2013. Þær mynda vísindalegan grunn fyrir ráðleggingar um mataræði og næringarefni á Norðurlöndum, þ.m.t. á Íslandi. Meðal þeirra þátta sem skoðaðir voru eru ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir vítamín og steinefni. Embætti landlæknis hefur séð um að yfirfæra norrænu ráðleggingarnar á íslenskar aðstæður, en endurskoðun ráðlegginga hér á landi tekur tillit til matarvenja Íslendinga. Embætti landlæknis hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að halda ráðlögðum dagskömmtum (RDS) fyrir vítamín og steinefni óbreyttum frá síðustu útgáfu NNR frá árinu 2004, að því undanskildu að ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín og steinefnið selen hafa verið hækkaðir.
Nýir ráðlagðir dagskammtar fyrir D-vítamín á Íslandi
Ráðlagður dagskammtur hérlendis fyrir D-vítamín er nú:
- 10 míkrógrömm (μg) á dag fyrir börn yngri en 10 ára og ungbörn
- 15 míkrógrömm (μg) fyrir aldurshópinn 10 til 70 ára
- 20 μg fyrir fólk yfir sjötugt
Áður var RDS fyrir D-vítamín, fyrir aldurshópinn 10 til 70 ára, 10 μg.
Merkingar á RDS í samræmi við reglugerð
Þrátt fyrir breytingu á RDS fyrir D-vítamín og selen á Íslandi á ekki að breyta merkingum á % RDS í næringargildismerkingum á matvælum.
Í reglugerð nr. 410/2009 um merkingu næringargildis matvæla kemur fram að heimilt er að merkja magn vítamína og steinefna og hundraðshluta þeirra af ráðlögðum dagskammti (RDS), ef þau eru í marktæku magni í matvöru. RDS gildin sem miða skal við í merkingum koma fram í töflu í reglugerðinni, þau eru þau sömu fyrir öll ríki á evrópska efnahagssvæðinu og eru 5 míkrógrömm fyrir D-vítamín. Í þessum merkingum er því ekki tekið tillit til mismunandi RDS eftir löndum. Matvörur sem eru í frjálsu flæði á EES markaði eru með sömu viðmið hvað þetta varðar.
Í nýrri reglugerð Evrópusambandsins nr. 1169/2011 sem tekur gildi í desember 2014, er tafla með sömu gildum, en þar heita þau næringarviðmiðunargildi (NV), en ekki ráðlagðir dagskammtar (RDS) og þar með er skýrara að ekki er átt við ráðlagða dagskammta sem lýðheilsuyfirvöld í hverju landi gefa út. Þegar reglugerðin verður innleidd hér á landi er gert ráð fyrir ákvæði í innleiðingareglugerð sem heimilar viðbótarupplýsingar um ráðlagðan dagskammt D-vítamíns á Íslandi.
Hve mikið af vítamínum og steinefnum má bæta í matvæli / fæðubótarefni?
Ekki eru til í reglugerðum ákveðin hámarksgildi fyrir vítamín og steinefni sem bæta má í matvæli eða sem hafa má í dagskammti af fæðubótarefnum. Samkvæmt matvælalögum skulu matvæli ekki vera skaðleg heilsu fólks. Í umfjöllun um ásættanlegt hámarksmagn vítamína og steinefna í matvælum (þ.m.t. fæðubótarefnum) styðst Matvælastofnun við álit vísindanefnda Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA; European Food Safety Authority) um efri þolmörk (tolerable Upper Levels of intake, UL) fyrir vítamín og steinefni. Efri þolmörk fyrir vítamín og steinefni voru gefin út árið 2006 og árið 2012 voru efri þolmörk fyrir D-vítamín endurskoðuð.
Efri þolmörk fyrir D-vítamín
Matvælastofnun telur ekki ásættanlegt að dagskammtur af fæðubótarefni innihaldi meira af tilteknu vítamíni eða steinefni, í ráðlögðum daglegum neysluskammti, en sem nemur efri þolmörkum. Það sama gildir fyrir matvæli með íblönduðum vítamínum og/eða steinefnum. Það er því mikilvægt að neytendur athugi heildar inntöku D-vítamíns m.t.t. efri þolmarka, ef notuð eru mörg D-vítamínbætt matvæli og/eða fæðubótarefni.
Efri þolmörk fyrir D-vítamín eru:
Aldur μg Alþjóðaeiningar* 0-1 25 1000 0-10 50 2000 11-17 100 4000 ≥18 100 4000
*Eingöngu til upplýsinga. Við merkingu vítamína og steinefna
skal nota einingar sem fram koma í reglugerð nr. 410/2009.
Ítarefni
- Vísindaálit matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) 2012 um hámarksneyslu á D-vítamíni
- Álit vísindanefndar EFSA 2006 um hámarksneyslu á D-vítamíni
- Nýir ráðlagðir dagskammtar fyrir vítamín og steinefni - frétt Embættis landlæknis 26.10.13
- Nýjar norrænar næringarráðleggingar - frétt Matvælastofnunar frá 06.06.12