Fara í efni

Ný fuglaflensutilfelli í Evrópu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fuglaflensa af stofni H5N8 kom upp á kalkúnabúi í Þýskalandi 4. nóvember s.l., í varphænum í Hollandi 14. nóvember og sama dag í aliöndum í Englandi. Matvælastofnun telur litla hættu á að fuglaflensan berist hingað til lands. Árstími og  strangar reglur um innflutning á lifandi fuglum vega þyngst í því mati. Fuglaflensa af þessum stofni hefur aldrei valdið sýkingum í fólki svo vitað sé.

Tilfellið í Þýskalandi er í héraðinu Mecklenburg-Vorpommern, á búi með 31 þúsund kalkúna. Þar vaknaði grunur um fuglaflensu þegar dauðsföll í kalkúnahópnum jukust skyndilega, 6% fugla drápust. Í Hollandi var um að ræða varphænsnabú í Utrecht með 150 þúsund fugla. Sýkingin í  Englandi var í öndum á búi í Yorkshire með 6 þúsund fugla. Þar minnkaði varpið skyndilega en dauðsföll jukust lítið. Öllum fuglum á viðkomandi búum hefur verið lógað og ýmsar varúðarráðstafanir fyrirskipaðar í löndunum s.s. svæðaskipting, takmarkanir á flutningum, aukið eftirlit og sýnatökur. Jafnframt er unnið að því að rekja smitleiðir.

Matvælastofnun fylgist grannt með útbreiðslu fuglaflensu í heiminum, sér í lagi í nágrannalöndum og löndum þar sem farfuglarnir okkar hafa vetursetu. Fuglaflensuveiran berst aðallega með lifandi fuglum og fugladriti. Stofnunin metur á hverjum tíma líkur á að smit geti borist í alifugla hér á landi. Matið er í megin atriðum tvíþætt, annars vegar hversu miklar líkur eru á að veirurnar berist til landsins og hins vegar á að þær berist í alifugla hér á landi. Við mat á líkum á að fuglaflensa berist til landsins er litið til ýmissa þátta, s.s. árstíma, í hvaða löndum smitið er, hversu umfangsmikið það er, hvort það er nálægt vetrarstöðvum farfuglanna okkar, um hvaða fuglategund er að ræða og til hvaða aðgerða hefur verið gripið þar sem smitið er. Líkur á að fuglaflensa berist í alifugla hér á landi byggjast fyrst og fremst á gæðum smitvarna á búunum. Alifuglabændur ættu ávallt að vera á verði gagnvart einkennum í fuglunum og hafa samband við dýralækni fái þeir grun um sjúkdóm. Einkenni fuglaflensu geta verið margvísleg, s.s. minna varp, minna át, öndunarfæraeinkenni, augnsýkingar, skita og aukinn fjöldi dauðra fugla. 

Í þessum nýlegu tilfellum í Evrópu er um að ræða fuglaflensuveirur af H5N8 stofni. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi stofn greinist í Evrópu en hann er þekktur í Suðaustur Asíu, bæði í villtum fuglum og alifuglum. Ekki er vitað til að fólk hafi smitast af þessum stofni fuglaflensuveiru en sumir aðrir stofnar eru hættulegir fólki. Því ætti fólk sem er í snertingu við fugla á svæðum þar sem hætta er á smiti, ávallt að gæta smitvarna.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?