Fara í efni

Ný Fésbókarsíða: Neytendavakt Matvælastofnunar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur tekið í notkun nýja Fésbókarsíðu undir yfirskriftinni Neytendavakt Matvælastofnunar. Tilgangur síðunnar er að miðla hagnýtum upplýsingum um öryggi matvæla, hættur og innkallanir, meðferð matvæla, vörusvik, merkingar og rétt neytenda til upplýsinga. Á síðunni geta neytendur einnig lagt sitt af mörkum í þágu matvælaöryggis með því að tilkynna um vanmerkt eða varasöm matvæli á markaði til Matvælastofnunar í gegnum ábendingakerfi stofnunarinnar.

Með því að líka við síðuna gefst neytendum kostur á að fá fyrrgreindar upplýsingar á skjótan og skilvirkan hátt í gegnum Fésbók með það að markmiði:

  • að gera neytendum kleift að forðast neyslu á varasömum matvælum á markaði.
  • að leiðbeina neytendum þannig að þeir geti sjálfir tryggt öryggi matvæla sem þeir neyta eftir fremsta megni.
  • að gera neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun um þann mat sem þeir neyta.
  • að taka við ábendingum frá neytendum um vanmerkt eða varasöm matvæli á markaði og svara spurningum þeirra.

Síðan býður upp á að hafa samband við Matvælastofnun í gegnum ábendingakerfi stofnunarinnar. Það er gert til að tryggja eftirfylgni og sér gæðastjóri til þess að öllum ábendingum sé lokið. Það er einnig gert til að halda yfirlit yfir ábendingar, fyrirspurnir og kvartanir til Matvælastofnunar. Fjöldi ábendinga, fyrirspurna og kvartana er tekinn saman og birtur í ársskýrslum Matvælastofnunar, ásamt efni þeirra.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?