Fara í efni

Ný þekking á slitgigt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Undanfarin 8 ár hefur dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun tekið þátt í umfangsmikilli rannsókn á fyrstu stigum slitgigtar í flötu liðum hækilsins hjá íslenskum hrossum, sjúkdómi sem frá fornu fari nefnist spatt. Tilgangurinn var m.a. að lýsa nákvæmlega hvar og hvernig sjúkdómurinn byrjar í von um að þær upplýsingar varpi skýrara ljósi á orsakir slitgigtar.

Rannsóknin byggir á nákvæmri myndgreiningu og vefjaskoðun á hækilliðum tveggja vetra trippa sem ræktuð voru í tilraunaskyni og báru með sér mismunandi mikla arfgenga áhættu fyrir spatti (báðir foreldrar með spatt, annað foreldrið eða hvorugt). Þannig varð til slitgigtarmódel sem hentaði vel til rannsókna á fyrstu stigum slitgigtar í liðum sem bera mikinn þunga en hreyfast lítið (high load-low motion joints). Beitt var nýstárlegum meinafræðilegum aðferðum sem greina vel á milli hinna tveggja laga sem liðbrjóskið er gert úr, kalkaða lagsins sem liggur að beini og hyalin brjósks sem liggur að liðholinu.

Niðurstöðurnar hafa verið birtar í hinu virta vísindariti European Cell and Materials. Þær gefa nýja sýn á meingerð slitgigtar sem talin er að geta haft víðtæka skírskotun. 

Sýnt var fram á að sjúkdómurinn byrjar með frumudauða á afmörkuðum svæðum (focal points) í hyalin-brjóski en í jöðrum þeirra skemmda fjölgar brjóskfrumum. Í framhaldinu verður röskun á kalkaða brjósklaginu þannig að það þynnist undir frumuskemmdinni en þykknar til jaðranna. Ef brjóskið eyðist alveg að beini opnast leið fyrir efnasambönd úr beinvef inn í liðinn sem leiða til útfellinga á kalknibbum inni í liðnum. Það er talinn afgerandi þáttur fyrir þróun sjúkdómsins. Kenningum um að slitgigt byrji með breytingum í beinvef, á mótum beins og brjósks eða í liðhimnu var hafnað.

Spatt rannsókn

Hæklar hesta röntgenmyndaðir við rannsókn á byrjunareinkennum slitgigtar

 
Rannsókn þessi var hluti af umfangsmiklu samvinnuverkefni dýralæknis hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun og Dýralæknadeildar sænska landbúnaðarháskólans. Aðrir þátttakendur eru frá tannlæknadeild Queen Mary University of London, læknadeild Háskólans í Lundi, Dýralæknaháskólanum í Alfort í Frakklandi og Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá lagði Háskólinn á Hólum til aðstöðu og studdi verkefnið.  Helstu styrktaraðilar voru Royal Swedish Academy of Agriculture and Forestry (H10-0265-CFH), the Swedish Norwegian Foundation for Equine Research (H0847237), Stofnverndarsjóður íslenska hestsins, Þróunarsjóður hestamennskunnar og Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

Aðrar greinar úr rannsókninni:

  • Ley C.J., Ekman S., Dahlberg L.E., Björnsdóttir S., Hansson K. Evaluation of osteochondral sample collection guided by computed tomography and magnetic resonance imaging for early detection of osteoarthritis in centrodistal joints of young Icelandic horses. Am J Vet Res 2013;74:874–887.
  • Ley C.J., Björnsdóttir S., Ekman S., Boyde A., Hansson K. Evaluation and comparison of radiography and low-field magnetic resonance imaging for the detection of early osteoarthritis in the centrodistal joints of young Icelandic horses. Submitted.    

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?