Fara í efni

Norræn ráðstefna um lyfjanotkun keppnishesta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samstarfsnefnd um vísindalega samvinnu norrænna dýralækna (NKVet) stóð fyrir ráðstefnu um lyfjanotkun keppnishesta – meðhöndlanir og misnotkun í byrjun október, sem í hnotskurn fjallaði um mörkin milli löglegrar lyfjanotkunar í lækningaskyni og misnotkunar lyfja sem miðar að því að bæta árangur hesta í keppni.

 
Veik og sködduð hross þurfa að sjálfsögðu læknishjálp og hverja þá lyfjameðhöndlun sem best tryggir bata þeirra og linar þjáningar. Þeim er þó jafn nauðsynlegt að fá hvíld og tíma til að byggja sig upp áður en þau geta hafið keppni að nýju. Á Norðurlöndunum er löng hefð fyrir því að gefa út í reglugerðum þann tíma sem hross þurfa til að jafna sig eftir meðhöndlun með hinum ýmsu lyfjum og banna að þau keppi fyrr en að þeim tíma liðnum (keppnisfrestur / withdrawal time). Megin tilgangurinn er að stuðla að því að aðeins heilbrigð hross taki þátt í sýningum og keppni eins og skýrt er kveðið á um í dýraverndarlögum þessara landa.

Á síðasta áratug hafa Norrænu kappreiðafélögin (brokk og stökk) unnið að því að samræma reglurnar sín á milli og stefnt er að samræmdum reglum fyrir kappreiðar um alla Evrópu.  Ísland hefur ekki tekið þátt í þessari samvinnu enda umræddar keppnisgreinar ekki stundaðar á Íslandi.

Alþjóðlegu hestasamtökin, International Equestrian Federation (FEI), hafa einnig mótað reglur á þessu sviði sem eru að mörgu leyti rýmri en hefð er fyrir á Norðurlöndum og rýmri en hin Evrópska samvinna kappreiðafélaganna gerir ráð fyrir (t.d. er keppnisfrestur vegna lyfjanotkunar ekki tiltekinn). Ástæða þess er hin mikla breidd í hefðum og öllum ytri aðstæðum þeirra landa og þeirra keppnisgreina sem eiga aðild að FEI. Reglur þeirra verða því einhverskonar minnsti samnefnari sem hægt er að ná sáttum um á þessum vettvangi.

Alþjóðasamband Íslandshestafélaga (FEIF) hefur ákveðið að að nota reglur FEI sem grunn í sínu starfi þó svo ævinlega þurfi að fara eftir dýraverndarlögum í hverju því landi sem FEIF viðburðir eru haldnir í.

Framfarir í greiningartækni hafa leitt til þess að dæmi eru um að hestar hafa greinst jákvæðir m.t.t. lyfjaleyfa þrátt fyrir að keppisbanni sé lokið og einnig eru dæmi um að hestar hafi greinst jákvæðir vegna mengunar í stíu eða öðru umhverfi. Til að takast á við þennan vanda hafa FEI og framangreind kappreiðafélög sameinast um að gefa út viðmiðunarmörk  fyrir lyfjaleyfar fyrir algengustu skráðu lyf sem notuð eru til meðhöndlunar og eru mörkin það lág að lyfin hafa í raun enga virkni. Ítrekað var að slík viðmiðunarmörk eru ekki gefin út fyrir lyf sem ekki eru skráð til notkunar í hross og fyrir þau lyf gildir því að engar lyfjaleyfar mega finnast.

Annar vandi er ógrynni bætiefna og náttúrulyfja sem notuð eru til meðhöndlunar á hrossum eða til að auka getu þeirra. Ef sýnt er fram á notkun slíkra efna, t.d. ef leyfar virkra efna úr plöntum finnast við lyfjapróf, fellur það undir lyfjamisnotkun.Slík atvik komu einmitt upp á sl. Ólympíuleikum. Þá eru ótalin ýmis lífvirk efni sem ekki er hægt að prófa gegn en vitað er að eru í umferð.

Enn er því verk að vinna og stöðugt þarf að vera á varðbergi til að tryggja velferð hrossa í keppni.

Þrír starfsmenn MAST sátu ráðstefnuna fyrir Íslands hönd: Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma, Björn Steinbjörnsson dýralæknir svínasjúkdóma og í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar og Þorsteinn Ólafsson dýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma og stjórnarmaður í NKVet.



Getum við bætt efni síðunnar?