Fara í efni

Niðurstöður mælinga á díoxíni og díoxínlíkum pcb efnum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

MAST hefur fengið niðurstöður mælinga á díoxíni og díoxínlíkum efnum úr búfjárafurðum og fóðri, sem tekin voru á Vestfjörðum og í Öræfum. Þessi sýnataka fór fram í kjölfar gruns um díoxínmengun sem kom fram við sýnatöku MS í desember síðastliðnum á bæ í Skutulsfirði.

Tekin voru alls 12 sýni af kjötafurðum frá bændum í Skutulsfirði. Af þessum 12 sýnum reyndust 2 vera eðlileg og í samræmi við niðurstöður sem fengist hafa við fyrri rannsóknir á búfjárafurðum. Átta sýni sýndu verulega hækkun en þó undir hámarksviðmiðunarmörkum. Tvö sýni voru yfir hámarksviðmiðunarmörkum.
  
Auk þessa voru tekin 6 sýni af mjólk hjá framleiðendum. Fimm sýni voru tekin á Vestfjörðum og eitt í Öræfum. Sýni tekið í Skutulsfirði reyndist yfir mörkum, hin voru eðlileg. Einnig var tekið heysýni í Skutulsfirði. Þar var um að ræða safnsýni tekið úr nokkrum heyrúllum. Þetta sýni reyndist einnig yfir hámarksviðmiðunarmörkum.

MAST  mun tilkynna hlutaðeigandi um niðurstöður sýnatöku, þ.e. bændum, sveitarfélagi, heilbrigðiseftirliti, Umhverfisstofnun, Sóttvarnarlækni, afurðastöðvum og hlutaðeigandi héraðsdýralæknum. Jafnframt mun stofnunin tilkynna hlutaðeigandi, þar sem við á, um takmarkanir varðandi nýtingu búfjárafurða og fóðurs.

MAST mun á næstu vikum kanna með sýnatöku heilnæmi búfjárafurða í nágrenni annarra sorpbrennslustöðva.

Frekari upplýsingar veita Kjartan Hreinsson og Sigurður Örn Hansson í síma 530 4800.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?