Fara í efni

Niðurstöður átaksverkefnis um útivist nautgripa

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Það er sama hversu góð fjósin eru, það jafnast ekkert á við það fyrir kýrnar að komast út til að bíta gras, rétta úr fótunum, anda að sér fersku lofti og leggjast á mjúka jörð. Legusár vetrarins gróa hratt á sumarbeit og hormónastarfsemi heiladinguls fær eðlilega örvun með sólarljósinu. Þess vegna kveða reglur á um að tryggja skuli öllum nautgripum, nema graðnautum eldri en 6 mánaða, 8 vikna útivist hið minnsta ár hvert. Með tilkomu nýrra fjósa og betri aðbúnaði hafa margir bændur freistast til að halda að nóg sé að gert og setja kýrnar ekki á beit.

Á liðnu sumri var hrundið af stað átaksverkefninuÚtivist nautgripa sem fólst í að fylgja eftir meintum brotum á reglum um útivist nautgripa. Árangurinn af átaksverkefninu reyndist góður. Í upphafi var grunur að um 32 kúabú væru að brjóta reglugerðina með tilliti til útivistar nautgripa. Fjöldinn reyndist ekki svo mikill og brugðust sumir bændur strax við athugasemdum Matvælastofnunar. Á endanum fengu 18 bændur bréf þar sem krafist var úrbóta í samræmi við kröfur reglugerðarinnar varðandi útivist nautgripa. Í 8 málum var orðið við kröfum MAST ýmist með hefðbundinni útivist eða uppsetningu á gerði og í nokkrum tilfellum var veittur frekari frestur til að bæta úr málum fyrir næsta sumar.

Bændur geta því notað tíman til gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja megi 8 vikna útivist nautgripa á bænum. Matvælastofnun mun á næsta ári vera fyrr á ferðinni og afla frekari gagna hjá þeim bændum sem grunaðir eru um brot á reglum um útivist nautgripa. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?