Mikilvægi kælingar á fiski
Öllum
þeim sem stunda fiskveiðar og fiskvinnslu, ætti að vera ljóst hversu
mikilvæg hröð og góð kæling á fiskinum er. Gæði fiskafurða og
geymsluþol ráðast ekki hvað síst af því hversu hratt fiskurinn er
kældur strax eftir að hann er veiddur. Hitastig í afla dagróðrarbáta,
sem berst óísaður að landi, er um eða yfir 10°C á sumrin. Fiskur, sem
geymdur hefur verið við svo hátt hitastig, hefur rýrnað umtalsvert að
gæðum og er því augljóslega mun verðminna hráefni.
Reglugerð 233/1999 um
hollustuhætti við meðferð vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða
tekur á þessu mikilvæga atriði, en þar segir m.a. í 5. tölulið 1.
kafla, viðauka 1:
![]() |
|
Allan fisk, annan en
þann sem selja á lifandi, skal blóðga, slægja, þvo og kæla þannig að
tryggt sé að hitastig fisks verði milli 0-4°C innan 6 klst. eftir að
hann hefur verið innbyrtur. Sé afla landað daglega er þó heimilt að
koma með óslægðan fisk að landi, enda hafi hann undantekningarlaust
verið blóðgaður, þveginn og kældur á fullnægjandi hátt, þ.e. að tryggt
sé að hitastig fisks verði milli 0-4°C innan 6 klst. eftir að hann
hefur verið veiddur. Matís hefur gefið út eftirfarandi leiðbeiningar um hve mikið ísmagn þarf til kælingar: |
- Til að kæla 100 kg af fiski úr 15°C niður í 0°C þarf 19 kg af ís.
- Til að kæla 100 kg af fiski úr 10°C niður í 0°C þarf 13 kg af ís.
- Til að kæla 100 kg af fiski úr 5°C niður í 0°C þarf 6 kg af ís.
Að auki þarf nokkurt magn af ís til að viðhalda kælingunni.
Gerlar
á fiski sem veiddir eru á norðlægum slóðum eru kuldaþolnir. Sumir
þeirra eru mjög virkir skemmdargerlar. Þessir gerlar hefja
skemmdarstarfsemi sína um leið og fiskur er dreginn úr sjó. Þeir
brjóta sér smám saman leið inn í fiskholdið sem er í upphafi gerlafrítt
og gefa þar frá sér ensím um leið og þeir fjölga sér. Ensímin valda
ýmsum efnahvörfum sem leiða til óæskilegra bragð og lyktarbreytinga.
Með kælingu er hægt að hægja verulega á starfsemi gerlanna. Þegar vel
er ísað og hiti sem næst 0 °C vaxa kuldaþolnu gerlarnir fremur hægt.
Þeir eru fljótir að taka við sé ef hitinn hækkar. Rannsóknir benda til
þess að kuldakærir gerlar á fisk vaxi helmingi hraðar við 2,5 °C en við
0 °C og að geymsluþol þorskflaka lengist um helming sé fisk haldið við
0 °C frekar en 3 °C.
Dauðstirðnum
fisks verður hægari við lægra hitastig. Ef hitastig er hátt í fiski
þegar hann gengur í gegnum dauðastirðnun eykst los í fiskinum. Við
hærra hitastig verður herpingur vöðvanna kröftugri, bandvefurinn á
milli vöðvalaganna skaðast og losið verður meira
Það
er því ekki að ástæðulausu að í reglugerðum er kveðið á um að geyma
skuli fisk við hitastig bráðandi íss sem er 0°C. Hérlendis hefur
hitastig bráðnandi íss verið túlkað sem 0-4 °C. Nágrannalöndin miða
við 0-2 °C og er það í skoðun hjá MAST hvort ekki sé ástæða til að
breyta þessari túlkun þar sem veruleguar ávinningur fæst við geymslu
við 0 °C í stað 2-4 °C. Það ætti að vera metnaður sjómanna að ísa fisk
strax og hann hefur verið innbirtur þannig að hitastig lækki fljótt
niður í 0°C.
Matvælastofnun
hvetur sjómenn og aðra fiskverkendur að gæta vel að hitastigi
hráefnisins allt frá því fiskurinn er veiddur þar til honum er skilað
sem fullunninni afurð, enda hvílir sú skylda á þeim sem veiða og vinna
fisk að stuðla að hámörkun verðmæta sem fást úr sjávarfangi, með því að
beita góðum framleiðsluháttum í hvívetna.